Stór sigdæld umhverfis gíginn

14.04.2010 - 09:40
Mynd með færslu
Jarðvísindamenn í TF SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar sem er á flugi yfir Eyjafjallajökli,segja að stór sigdæld sé umhverfis gíginn sem er uppá hábungu á jökulsins. Jarðvísindamennirnir geta sér til um að ummál dældarinnar sé 1 km x 600 metrar og að dældin stækki ört.

Á síðustu mínútum hafi orðið miklar breytingar. Rétt rúmlega níu töldu þeir gatið sjálft vera 200 metra. Ekki sést þó í eld eða sprungu, enda er skýjað. TF SIF er búin tækjum sem sjá í gegnum ský. Jarðvísindamennirnir geta sér til um að sprungan sé um 500 metrar. Það er gjóskufall til austurs og það nær að Fimmvörðuhálsi. Gosmökkurinn hefur hækkað og er kominn í 22 þúsund fet.

Aðeins er gos í toppgígnum en ekki í suðurhlíðunum. Hlaup er í jökulsánni, 1000 rúmmetrar á sekúndu og fer vaxandi.

Göngubrúin á lóninu er farin og flóðið hefur margfaldast úr Gígjökli. Það nær hálfa leið að Markarfljótsbrú. Þar er fólk á bílum sem ætti að koma sér á Hvolsvöll sem fyrst. Almannavarnir biðja þá sem fóru til gegninga í Landeyjum að gera hið sama. Þeir eru hvattir til að koma sér strax á Hvolsvöll.

Í lágflugi við Pétursey og vestur með Eyjafjöllum sáu jarðfræðingar í TF SIF að engar breytingar voru á vatnsföllum þar. Flóðið virðist fara norður fyrir og niður Markarfljótsaurana.