Stolið geislavirkt efni enn ófundið

18.02.2016 - 06:11
Erlent · Asía · Írak
epa03013950 A radioactive sign is seen on a train carrying Castor nuclear waste, passes by Metz, eastern France, 24 November 2011. On the upcoming weekend, the 13th dry cask storage transport of radioactive waste from France will arrive in the Wendland,
 Mynd: EPA
Hvorki hefur fundist tangur né tetur af stórhættulegu geislavirku efni sem stolið var í Írak í nóvember í fyrra. Írösk yfirvöld óttast að vígamenn úr sveitunum sem kenna sig við íslamskt ríki hafi komist yfir efnið og noti það í vopn. Stjórnvöld tilkynntu þjófnaðinn til Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar í nóvember en hafa ekki beðið um aðstoð við leitina.

Efninu var stolið úr geymsluhúsnæði í eigu bandarísks olíuþjónustufyrirtækis í borginni Basra. Fréttastofa Reuters hefur eftir talsmanni fyrirtækisins að það eigi ekki og komi ekki nálægt því sem er í geymsluhúsnæðinu eða húsnæðinu sjálfu. Talsmaður umhverfisráðuneytis Íraks neitaði að tjá sig af öryggisástæðum.

Efnið notar gammageisla til þess að athuga galla í hlutum sem notaðir eru í olíu- og gasleiðslur. Það er í eigu tyrkneska fyrirtækisins SGS samkvæmt gögnum sem Reuters komst yfir. Enginn forsvarsmanna fyrirtækisins var tilbúinn að gefa sig á tal við fréttamann Reuters.

Að sögn bandaríska varnarmálaráðuneytisins er ekkert sem bendir til þess að IS eða aðrar vígasveitir hafi komist yfir efnið.

Lífshættulegt við ranga meðhöndlun

Efnið sem um ræðir er Iridium. Það var geymt í hylki sem var á stærð við fartölvu. Það inniheldur 10 grömm af iridíum-192, geislavirku efni sem einnig er notað til þess að berjast við krabbamein. Alþjóða kjarnorkumálastofnunin segir að ef efnið er meðhöndlað rangt geti það valdið varanlegum skaða ef maður er nálægt því í nokkrar mínútur eða klukkustundir. Sé maður í fleiri klukkustundir eða daga nálægt efninu getur það verið banvænt. Það fer þó allt eftir aldri og styrk efnisins. Samkvæmt þeim gögnum sem Reuters hefur undir höndum segja írösk stjórnvöld að efnið sé hættulegt fólki og umhverfinu og sé ógn við þjóðaröryggi.

Þjófurinn þekkti líklega til

Reuters hefur eftir starfsmanni írösku leyniþjónustunnar að hann óttist að efnið komist í hendurnar á vígamönnum sem noti það til þess að búa til svokallaða skítuga sprengju. Þá er geislavirka efnið fest við sprengjuna sem gerir umhverfið geislavirkt þegar hún springur. Starfsmaðurinn, sem vildi ekki láta nafn síns getið, segir enn enga liggja undir grun fyrir þjófnaðinn. Sá seki hljóti þó að þekkja bæði aðstæðurnar sem efnið var geymt í og hvernig á að meðhöndla það, því engar skemmdir voru á lásum eða dyrum.

Íraski herinn berst gegn IS í norður- og vesturhluta Íraks. Basra er hins vegar í suðurhluta landsins og eru 500 kílómetrar að næsta svæði sem er undir yfirráðum IS. Þrátt fyrir það hafa þeir lýst ábyrgð sinni á sprengjuárásum í suðurhluta landsins, þar á meðal einni sem varð tíu að bana nærri geymsluhúsnæðinu.

Um leið og upp komst um þjófnaðinn voru sérsveitir sendar af stað til þess að leita á olíusvæðum, ruslahaugum og við landamærastöðvar. Tveimur vikum síðar var sjúkrahúsum gert að tilkynna yfirvöldum um bruna af völdum geislavirkra efna.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV