Stofnun múslima á Íslandi fékk peningana

09.03.2015 - 20:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Menningasetur múslima fékk ekki rúmlega milljón Bandaríkjadala til byggingar mosku hér á landi, segir leiðtogi þess. Sjálfseignastofnunin Stofnun múslima á Íslandi hafi fengið peningana en Menningarsetrið leigir Ýmishúsið við Skógarhlíð af henni. Sendiherra Sádi-Arabíu heimsótti söfnuðinn á dögunum.

Greint var frá því á vef forsetaembættisins á fimmtudag að nýr sendiherra Sádi-Arabíu á Íslandi, Ibrahim S.I. Alibrahim, hafi sagt frá því að Sádi-Arabía hygðist leggja fram rúmlega eina milljón Bandaríkjadala til byggingar mosku hér á landi og hefði skoðað lóðina við Sogamýri  þar sem að moskan á að rísa. Hvorki Félag múslima á Íslandi né Menningarsetur múslima á Íslandi kannast við að hafa fengið peningana.

„Við fengum ekki þennan fjárstyrk, hann er ekki ætluð Menningarsetri múslima,“ segir Ahmad Seddeq múslimaklerkur. „Við leigjum bara húsið en eigum það ekki. Það eru önnur samtök, fyrirtæki sem er ekki trúarlegt, sem á bygginguna.“ Þar vísar Ahmad til sjálfseignarstofnunarinnar Stofnunar múslima á Íslandi. 

 

Ahmad segir að formaður þeirrar stofnunar sé Hussein Al Daoudi sem býr í Svíþjóð. Ahmad segist ekki vera starfsmaður Al-Daoudis. Menningarsetrið leigi húsnæðið við Skógarhlíð 20 af Stofnun múslima, sem samkvæmt fyrirtækjaskrá er til húsa á sama stað. Samkvæmt nýjasta ársreikningi Stofnunar múslima á Íslandi, sem er frá 2013, var hún sett á laggirnar fyrir fimm árum og hefur þann tilgang að stuðla að því að viðhalda íslömskum einkennum úr samfélagi múslima. 

Ahmad segist ekki vita til hvers Stofnun múslima á Íslandi ætli að nota féð. 

Ahmad var að kenna í menningarsetrinu þegar sendiherrann heimsótti það. „Hann var hér í hálfa til eina klukkustund. Við báðum og síðan fór hann. Ahmad segir að sendiherrann hafi ekki rætt um að styrkja menningarsetrið fjárhagslega.