„Stjórnvöld skildu ekki að hér átti ég heima“

31.05.2016 - 11:35
Isabel Alejandra Díaz út­skrifaðist úr Mennta­skól­an­um á Ísaf­irði á laug­ar­dag með hæstu ein­kunn allra nemenda í ís­lensku. Hún tók við sérstökum verðlaunum af því tilefni og skartaði íslenskum þjóðbúningi; 20. aldar upphlut sem hún saumaði og gerði sjálf. Í áratug bjó hún við stöðugan ótta um að verða vísað úr landi af íslenskum stjórnvöldum. Rætt verður við hana í Kastljósi í kvöld.

Isabel Alejandra fluttist til Íslands ásamt foreldrum sínum árið 2001, eftir ofsóknir glæpasamtaka sem höfðu myrt fjölskyldumeðlim hennar, kúgað fé út úr fjölskyldunni og hrakið þau á flótta, frá heimalandinu El Salvador. Þangað lá leiðin til Íslands en á Ísafirði hafði frænka þeirra gifst íslenskum manni.

Næstu tíu árin barðist fjölskyldan við að fá dvalarleyfi fyrir hana hér á landi. Málið var flókið þar sem hún var í raun barna­barn for­eldra sinna, sem ættleitt höfðu hana með leyfi blóðmóður hennar. Þurfti þvi að end­ur­nýja dval­ar­leyfið með reglu­bundnu milli­bili. Málið hafi svo flækst enn þá meira þegar lög­fræðing­ur fjöl­skyld­unn­ar í El Sal­vador lét lífið í mann­skæðum jarðskjálfta og öll gögn henn­ar þar í landi týnd­ust. Frá því Isabel fluttist fimm ára til Íslands og allt þar til áratug síðar mátti hún því eiga von á því að verða send úr landi.

Saga fjölskyldunnar og barátta þeirra fyrir því að fá dvalarleyfi fyrir Alejöndru var sögð í Kastljósi árið 2007.

Í Kastljósi í kvöld rifjar Isabel Alejandra upp þessa sögu fjölskyldunnar og lýsir með eigin orðum þeirri sérstöku stöðu að búa við það öll sín æskuár að vera með undanþágu-heimaland. Óttanum við að vera send í burtu frá Íslandi, skilningsleysi sem stjórnvöld sýndu henni og fjölskyldu hennar, ást hennar á Íslandi og samfélaginu í heimabæ hennar sem hún segist standa í mikilli þakkarskuld við.

 

Mynd með færslu
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Kastljós