Stjórnlagaþingmenn fengu kjörbréf

02.12.2010 - 22:27
Mynd með færslu
Landskjörstjórn fór yfir kosningar til stjórnlagaþings og tengd mál með frambjóðendum til þingsins í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Bæði kjörnir fulltrúar og þeir frambjóðendur sem ekki náðu kjöri voru boðnir á fundinn. Fólk fékk að spyrja um það sem því lá á hjarta varðandi framkvæmd kosninganna. Að fundi loknum fengu þjóðkjörnir stjórnlagaþingmenn afhent kjörbréf, undirrituð af landskjörstjórn. Kjörstjórnin hefur birt upplýsingar um talnaefni frá kosningunum. Stjórnlagaþingmenn eiga fund með undirbúningsnefnd stjórnlagaþingsins á laugardag þar sem farið verður yfir starfsreglur þingsins og starfskjör. Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing skal það koma saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 og ljúka störfum 15. apríl 2011. Stjórnlagaþingmenn þurfa þó að vera búnir undir fjögurra mánaða þinghald en ekki tveggja, komi til þess.