Stjórnarskráin: Nýju ákvæðin komin

19.02.2016 - 18:58
Mynd með færslu
Páll Þórhallsson er formaður stjórnarskrárnefndar.  Mynd: RÚV
Almenningi gefst kostur á að skila umsögnum til 8. mars um ný ákvæði í stjórnarskrá um náttúruauðlindir og þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að stjórnarskrárnefnd samþykkti endanleg drög síðdegis.

Nefndin ákvað að birta drög að frumvörpum með þremur nýjum ákvæðum inn í stjórnarskrána. Ákvæðin varða þjóðaratkvæðagreiðslu, náttúruauðlindir og umhverfis- og náttúruvernd meðal annars um almannarétt. Ef 15 prósent kjósenda fer fram á að nýsamþykkt lög verði borin undir þjóðaratkvæði þá skal orðið við því. 

Lýst yfir þjóðareign á náttúruauðlindum

„Það sem er auðvitað markvert í auðlindaákvæðinu er að lýsa yfir þjóðareign á mikilvægustu náttúruauðlindum okkar og mæla síðan fyrir um með hvaða skilyrðum megi úthluta nýtingarheimildum.“ segir Páll Þórhallsson formaður stjórnarskrárnefndar. Fundur stjórnarskrárnefndar í dag stóð rúmar þrjár klukkustundir. Páll segir að töluverðan tíma hafi tekið að klára yfirferð yfir skjölin. Ítarlegar skýringar fylgi með.  „Og nefndarmenn vildu ganga úr skugga um að sem minnst væri skilið eftir af óljósum atriðum og allir væru sammála í stórum dráttum um skýringarnar.“

Gott að fá viðbrögð 

Hægt er að skoða tillögurnar og greinargerðir inn á stjórnarskrá.is. Umsagnarfrestur er til 8. mars. þá gerir stjórnarskrárnefnd endanlegar tillögur eða frumvörp. Páll segir stefnt að því að leggja þau fram á vorþingi.  „Það er líka gott að fá þetta tækifæri núna til að kynna tillögurnar, fá viðbrögð, því að umræðan hefur auðvitað verið svolítið lokuð inni í nefndinni og svo í samráði við þingflokka sem hafa auðvitað verið upplýstir um stöðu mála.“

Á vefnum stjornarskra.is er hægt að skoða nýju drögin. Hér er frumvarpið um náttúruauðlindir með skýringum. Hér er frumvarpið um þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda. Og hér er frumvarpið um umhverfis- og náttúruvernd. Athugasemdir við frumvarpsdrögin má senda á postur@for.is

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV