Stíf fundarhöld hjá dönsku stjórninni

26.02.2016 - 00:56
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Nær sjö tíma krísufundi leiðtoga Bláu blokkarinnar svokölluðu, minnhlutastjórnar Venstre í Danmörku og hægriflokkanna þriggja sem verja hana falli, lauk í ráðherrabústaðnum Marienborg norður af Kaupmannahöfn laust fyrir miðnætti að dönskum tíma. Kreppa er í dönskum stjórnmálum eftir að Íhaldsflokkurinn, einn flokkanna í bláu blokkinni, krafðist afsagnar Evu Kjer Hansen, umhverfis- og matvælaráðherra, en Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra þrjóskast við að láta hana víkja.

Stjórnarandstaðan lagði fram vantrauststillögu á Hansen á miðvikudag og ljóst er að ráðherrann nýtur ekki meirihlutastuðnings á þinginu. Formenn flokkanna fjögurra tjáðu sig ekki við fréttamenn að fundi loknum, en Christine Cordsen, stjórnmálaskýrandi danska ríkisútvarpsins segist hafa heimildir fyrir því að hinn umdeildi ráðherra hafi alls ekki verið aðalatriðið á þessum maraþonfundi forsætisráðherra með formönnum stuðningsflokkanna þriggja, Íhaldsflokksins, Danska þjóðarflokksins og Frjálslyndra.

Eftir því sem hún komist næst hafi stemningin verið nokkuð góð á fundinum. Það skýrist að hennar mati ekki síst af því að menn virðast hafa einbeitt sér að því að ræða nýja búvörusamninginn en forðast hið eldfima umræðuefni, nefnilega ráðherrann sem lagði samninginn fram og framtíð hennar á ráðherrastóli, þótt það hafi verið tilefni fundarins.

Kjer Hansen er sökuð um að hafa lagt rangar tölur til grundvallar útreikningum ráðuneytis síns á mengun frá dönskum landbúnaði. Greidd verða atkvæði um vantrauststillöguna á miðvikudaginn, verði hún þá enn í embætti. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV