Stefnt að endurbótum á Húsavíkurflugvelli

17.01.2016 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Isavia stefnir að endurbótum á Húsavíkurflugvelli í Aðaldal á þessu ári, en endurnýja þarf tæki sem eru orðin nokkurra áratuga gömul. Friðrik Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings, segir þetta ákveðinn létti.

 

Meðal þess sem endurnýjað verður eru lendingarljós, en ljósin sjálf voru tekin í notkun árið 1976 og hafa bilað ítrekað. Reglulegt áætlunarflug er um völlinn alla virka daga, en flugfélagið Ernir flýgur þangað tvisvar á dag. Sveitarstjórn Norðurþings óskaði eftir fundi með fulltrúum Isavia á dögunum. 

„Við óttuðumst það að þau áform, varðandi það að brautin verði mjókkuð myndu hafa áhrif á nýtingu vallarins,“ segir Friðrik. „Fulltrúar Isavia fullvissuðu okkur um það á þessum fundi að svo yrði ekki.“

Á fundinum kom fram að ekki verði settur upp nýr aðflugsviti, en þess í stað verði settur upp ódýrari GPS-aðflugsbúnaður. Kostnaður við slíkt er um þrjár milljónir króna fyrir Isavia, en hinsvegar um sjö milljónir í hverja og eina flugvél sem ekki hefur slíkt.

Þá kom fram að vilji Isavia standi til þess að áframhaldandi upppbygging verði á flugvellinum. Friðrik segir það mikinn létti. „Það er búið að vera þannig í dálítinn tíma að menn hafa óttast það hreint og beint að vellinum yrði bara lokað. Þetta er hins vegar sá flugvöllur sem hefur verið hvað mest aukning farþega um á landinu. Aðrir vellir hafa hreint og beint, það hefur verið samdráttur í flugi innanlands en ekki á Húsavík. Þar hefur verið aukning.“

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV