Stærsta vélin í innanlandsflugi komin

24.02.2016 - 17:16
Fyrsta flugvél Flugfélags Íslands af gerðinni Bombardier Q400 lenti á Reykjavíkurflugvelli síðdegis. Með innleiðingu nýju flugvélanna gerist það í fyrsta skipti í hálfa öld að öflugustu flugvélar Flugfélags Íslands og burðarásarnir í innanlandsfluginu eru ekki af Fokker-gerð.

Hálfar aldar sögu Fokkeranna á Íslandi lýkur

Koma fyrstu Bombardier Q400 farþegaflugvélar Flugfélags Íslands í dag markar ein mestu tímamót í áratugi þegar kemur að flugflota landsmanna í innanlandsflugi. Vélarnar leysa af hólmi Fokker 50 vélarnar sem hafa verið burðarás í starfi Flugfélags Íslands í hartnær aldarfjórðung, frá árinu 1992. Þær vélar komu í stað Fokker 27 vélanna sem leystu eldri flugvélar af hólmi á árunum 1965 og 1972. Það voru sennilega mestu umskiptin í innanlandsflugi Íslendinga þar sem Fokkerarnir voru mun öflugri og tóku helmingi fleiri farþega en þristarnir, DC 3 farþegaflugvélarnar, sem sinnt höfðu innanlandsflugi fyrstu áratugina eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Að auki höfðu Fokkerarnir jafnþrýst farþegarými sem gerði flugferðina mun þægilegri en fólk átti að venjast. Samhliða þessu hafa hin ýmsu flugfélög rekið margar tegundir flugvéla en iðulega minni en Fokkerarnir.

Stærri og hraðfleygari en Fokkerarnir

Nýju flugvélarnar eru talsvert stærri en Fokkerarnir sem þær koma í stað. Það sést best á því að sæti eru fyrr 74 farþega í flugvélunum en 50 í Fokkerunum og 37 í eldri Bombardier-vélum sem Flugfélag Íslands hefur rekið. Að auki eru Bombardier-vélarnar nýju þriðjungi hraðfleygari en venjulegar skrúfuþotur, þær eru lágværari en Fokkerarnir og samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands er gert ráð fyrir að eldsneytisneysla á hvern farþega verði tíu prósentum minni með nýju flugvélunum en þeim gömlu.

Þrjár Bombardier Q400 flugvélar leysa fjórar Fokker 50 af hólmi. Samhliða því styttist flugtíminn um nokkrar mínútur og einhverjar breytingar verða á ferðatíðni. Að því er fram kemur á vef Flugfélags Íslands verða þó ekki færri en fjögur flug milli Reykjavíkur og Akureyrar daglega og þrjú flug milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Að auki bætast við nýir áfangastaðir frá Keflavík. Nýju flugvélarnar eru þannig útbúnar að þær geta nýst til millilandaflugs á styttri leiðum, svo sem til Skotlands. Flugvélarnar verða nýttar á flestum en ekki öllum leiðum Flugfélags Íslands. Áfram verður flogið milli Ísafjarðar og Reykjavíkur á Bombardier Q200 flugvélunum sem Flugfélag Íslands á fyrir, auk þess sem nýju flugvélarnar henta ekki til flugs til Nuuk og Ilulissat.

Gert er ráð fyrir að allar nýju flugvélarnar verði komnar til landsins í vor og að fljótlega eftir það verði notkun Fokker 50 flugvélanna hætt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV