Stærsta gos í Grímsvötnum í 100 ár

22.05.2011 - 09:13
Mynd með færslu
Gosið í Grímsvötnum er það stærsta í 100 ár. Því svipar til gossins árið 1873, segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. Ekki eru líkur á stóru hlaupi.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir eldgosið í Grímsvötnum það stærsta sem þar hefur komið síðustu 100 ár. Gosmökkurinn er um 15 til 18 km sem þýðir að gosið er allt að því 10 sinnum öflugra en til dæmis síðasta gos. Hann segir gosið þó ekkert einsdæmi, Grímsvötn fari í gegnum fasa þar sem þau gjósi oft á 60-80 ára tímabili, svo komi rólegri tímabil á milli, álíka löng. Í þessum fösum komi gos sem eru svipuð gosunum sem voru 1998 og 2004 en svo sé eins og 3., 4. gos eins og árið 1619 þegar kom mjög mikið gos og árið 1873, en þá var líka mjög mikið gos, og nú virðumst við vera að fá slíkt gos. Þetta er því býsna stórt Grímsvatnagos, miklu stærra og miklu meira kvikuflæði og miklu meira uppstreymi af ösku í þessu gosi en var í Eyjafjallajökli. Þar muni verulega miklu segir Magnús Tumi. Askan dreyfir sér mjög víða og gosmökkurinn nær yfir verulegan hluta landsins. Það sé að einhverju leyti vegna þess að það er ekki mjög mikill vindur í háloftunum, en það er líka merki um það hvað þetta er öflugt gos.


Ekki hefur tekist að staðsetja gosið nákvæmlega en þó er vitað að það er inni í Grímsvötnum sjálfum. Vatnsstaða Grímsvatna er mjög lág, þar er lítið vatn. Gosið bræðir einhvern ís en þó aðallega þunnan ís. Þess vegna eru ekki líkur á stóru hlaupi. Miðað við hlaupið í Markarfljóti frá Eyjafjallajökli í fyrra, þó að slíkt hlaup kæmi niður í Gígkvísl og Skeiðará þá er það lítið Grímsvatnahlaup. Öll mannvirki þar taki aðveldlega við því segir Magnús Tumi. Það má búast við hlaupi af slíkri stærðargráðu. En þar sem ekekrt tækifæri hefur gefist til að sjá nákvæmlega, hvar gosstöðvarnar eru eða hvað gosið bræðir mikinn ís, hvort þetta er sprunga sem teygir sig eitthvað undir þykkan jökul - þetta sé ekki vitað enn. „Það er full ástæða til að vera með vara á sér og fylgjast með ánum og sjá hvað er að gerast þó ég eigi ekki von á að það verði stórhlaup,“ segir Magnús Tumi.


Hann telur ekki miklar líkur á hraunflæði og segir að verði um slíkt að ræða verði það inni í Grímsvötnum þegar gosrásin er búin að tæma sig og ekkert vatn kemst lengur að henni. Því verði ekki vart við slíkt hraunflæði ef af því verður segir Magnús Tumi og bætir við: „Grímsvatnagos eru fyrst og síðast öskugos.“


Eldgosið nú tengist eldgosunum í fyrra ekki beint, segir Magnús Tumi. „Þessi eldgos hafa hvert sinn rytma. Það er ekki að sjá að Katla og Eyjafjallajökull annars vegar og Hekla hins vegar og Vatnajökull í þriðja lagi hafi nein bein tengsl sín á milli.“