Staðan gjörbreyttist nánast á einni nóttu

02.03.2016 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skuldastaða íslenska þjóðarbúsins við útlönd er gjörbreytt eftir að nauðasamningar náðust við kröfuhafa gömlu bankanna. Skuldir lækkuðu um rúmlega 7.000 milljarða króna á milli ársfjórðunga. Staða Íslands hefur ekki verið jafngóð síðan fyrir aldamót.

Haustið 2008 voru þrotabú stærstu banka landsins sett í slitameðferð. Skuldir þeirra við kröfuhafa hafa allar götur síðan haft mikil áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins. Í lok síðasta árs samþykktu kröfuhafar nauðasamninga, sem fela í sér að rúmlega 1.900 milljarðar króna renna til þeirra, en á móti eru afskrifaðar skuldir við kröfuhafana upp á rúmlega 7.100 milljarða.

Seðlabankinn birti síðdegis upplýsingar um erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársins. Þar eru teknar saman erlendar eignir og skuldir ríkisins, almennings og einkafyrirtækja.

Frá því löngu fyrir hrun hefur staðan verið neikvæð, sem þýðir að skuldir Íslands í útlöndum eru meiri en eignirnar.

Í lok september í fyrra voru skuldirnar, þegar búið var að draga eignirnar frá, rúmlega þrefalt meiri en öll landsframleiðsla Íslands, rúmlega 7.500 milljarðar króna. Í árslok, eftir að kröfur kröfuhafa voru afskrifaðar að mestu, var þetta hlutfall komið úr 343%, niður í rúmlega 14% af landsframleiðslu, eða 316 milljarða króna.

Til samanburðar voru skuldir þjóðarbúsins umfram eignir rúmlega 86% af landsframleiðslu árið 2005, og rúmlega 50% árið 1995. Lengra aftur ná sambærilegar tölur Seðlabankans ekki, en samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum má leiða líkur að því að erlend staða íslenska þjóðarbúsins hafi ekki verið jafngóð síðan á síldarárunum.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV