Sprengingar og skothríð þrátt fyrir vopnahlé

27.02.2016 - 18:58
epa05183603 People walk at a market after a ceasefire that went into effect in the capital Damascus, Syria, 27 February 2016. According to monitoring group, the ceasefire in Syria was largely holding on 27 February hours after the deal brokered by Russia
 Mynd: EPA
Sprengjum hefur verið varpað nærri Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í dag. Fregnir hafa einnig borist af skotbardögum þótt vopnahlé hafi tekið gildi í landinu í gærkvöldi.

 

Það var kl. 22 í gærkvöldi að íslenskum tíma, miðnætti að staðartíma, sem vopnahléið tók gildi. Það er það víðtækasta síðan stríðið hófst fyrir rétt tæpum 5 árum. Skömmu áður samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun um stuðning við vopnahléið. Varað er við að vegurinn að friði geti orðið ósléttur þó að vopnin hafi verið lög til hliðar. Til átaka geti komið.

„Það mikilvægasta sem við þurfum að sjá er hvort slík átök verða stöðvuð fljótt og vel,“ sagði Staffan De Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, á fundi með blaða- og fréttamönnum í gærkvöldi. „Það er prófraunin.“ 

Í dag hafa borist fregnir af stórskotaliðsárásum á bæinn Khan al-Shih suðvestur af Damaskus. Talið er að tveir hafi fallið. Þá hafi aðrir tveir látið lífið í bílsprengjuárás tengdri vígasveitum hryðjuverkamanna í bænum Salamiyeh í miðhluta landsins. Þar ræður Sýrlandsstjórn ríkjum. Fregnir hafa einnig borist af skothríð en ekki er vitað hvaða fylkingar hafi barist eða hvort mannfall varð. Vopnahléið er tímabundið og takmarkað og tekur ekki til vígahópa Íslamska ríkisins og al Kaída. Rússar greindu frá því í morgun að herflugvélum yrði ekki flogið yfir Sýrland í dag. Átökum yrði hætt í Hama, Damskus og Homs - sem raunar er draugabær í dag vegna blóðugra bardaga og sprengjuregns síðustu missera. Íbúar í Damaskus eru vongóðir.

„Í dag vöknuðum við og allt var rólegt,“ segir Loris Atwah, íbúi í Damaskus. „Ég fór út á götu og á milli staða og allt var rólegt. Íbúarnir eru bjartsýnir á að ástandið róist og batni hér í Sýrlandi.“

Friðarviðræður eru fyrirhugaðar í Genf í Sviss 7. mars. 250 þúsund manns hafa fallið í átökunum, sem hófust í mars 2011. Ellefu milljónir manna eru á flótta.