Spotlight besta myndin - Mad Max með 6 Óskara

29.02.2016 - 05:21
Nicole Rocklin, pictured at front, and cast and crew of “Spotlight” accept the award for best picture for “Spotlight” at the Oscars on Sunday, Feb. 28, 2016, at the Dolby Theatre in Los Angeles. (Photo by Chris Pizzello/Invision/AP)
Aðstandendur Spotlight - sigurinn kom mörgum í opna skjöldu, flestir veðjuðu á Afturgönguna, The Revenant.  Mynd: Chris Pizzello/Invision/AP  -  Invision
Spotlight fékk Óskarinn sem besta kvikmynd ársins 2015. Alejandro González Iñárritu fékk Óskarinn sem besti leikstjórinn, fyrir tök sín á myndinni The Revenant, eða Afturgöngunni og Leondardo diCaprio þótti allra leikkarla bestur fyrir túlkun sína á titilhlutverkinu. Brie Larson var kjörin best leikkvenna fyrir frammistöðu sína í glæpadramanu Room. Mad Max: Fury Road er þó ef til vill sigurvegari kvöldsins, því myndin fékk heila sex Óskara.

Sigur Spotlight kom nokkuð á óvart, en flestir höfðu veðjað á The Revenant.  Spotlight er glæpadrama sem snýst um útbreidda og alvarlega kynferðisglæpi kaþólskra presta í Bandaríkjunum gagnvart börnum, og rannsókn blaðamannateymis Boston Globe á þeim óhugnaði öllum. Spotlight fékk reyndar bæði fyrstu og síðustu Óskarsverðlaun kvöldsins, því auk þess að vera valin kvikmynd ársins fengu handritshöfundarnir Tom McCarthy og Josh Singer, Óskarinn fyrir besta frumsamda handritið.

Vonbrigði hjá Afturgöngufólki

The Revenant var tilnefnd til tólf verðlauna, en uppskar aðeins þrenn, auk leikstjórans og aðalleikarans fékk Emanuel Lubezki Óskar fyrir kvikmyndatöku. Þetta er annað árið í röð sem Iñárritu fær Óskarinn, en hann fékk styttuna í fyrra fyrir að stýra Fuglamanninum, Birdman.

Mad Max með 6 Óskarsverðlaun

Mad Max: Fury Road var tilnefnd til 10 verðlauna og aflabrögðin öllu betri en hjá afturgöngunum, því 6 verðlaun fóru til Ástralíu. Leikmynd, hár og förðun, hljóðblöndun, klipping, hljóðklipping og búningar - allt þótt þetta bera af öðru hjá aðstandendum Mad Max.

Morricone hafði betur en Jóhann

Ennio Morricone hafði betur en Jóhann Jóhannsson í slagnum um bestu kvikmyndatónlistina, hann samdi tónlistina við vestra Tarantinos, The Hateful eight.  Morricone er 87 ára gamall og þar með elsti Óskarsverðlaunahafi sögunnar. Þetta voru fyrstu Óskarsverðlaun hans, en hann hefur verið tilnefndur sex sinnum. 

Breskur njósnari Rússa hafði betur en gamall amerískur boxari

Sylvester Stallone, sem tilnefndur var fyrir besta leik í aukahlutverki fyrir leik sinn í hnefaleikamyndinni Creed varð að sjá á eftir verðlaununum í hendur breska leikarans Marks Rylands, sem leikur rússneskan njósnara í mynd Spielbergs,  Bridge of spies, eða Njósnarabrúnni. Hin sænska Alicia Vikander var valin best leikkvenna í aukahlutverki, en hún leikur dönsku listakonuna Gerðu í myndinni um Dönsku stúlkuna, The Danish girl, sem þó dregur ekki nafn sitt af henni heldur eiginmanni Gerðu, sem langar að lifa lífinu sem kona.

Sonur Sauls, Amy og Inside Out

Ungverska myndin Sonur Sauls var valin besta kvikmyndin á öðru tungumáli en ensku, Amy, heimildarkvikmynd um líf og dauða Amy Winehouse, taldist besta heimildarmyndin í fullri lengd og Inside Out var valin besta hreyfimyndin í fullri lengd.

Heildarlistinn

Besta kvikmynd: Spotlight
Besti leikstjóri: Alejandro González Iñárritu - The Revenant
Besta leikkona í aðalhlutverki: Brie Larson - Room
Besti leikari í aðalhlutverki: Leonardo di Caprio
Besta leikkona í aukahlutverki: Alicia Vikander - The Danish Girl
Besti leikari í aukahlutverki: Mark Ryland - Bridge of Spies
Besta kvikmyndin á öðru máli en ensku: Son of Saul/Sonur Sauls - Ungverjaland
Besta heimildamyndin: Amy 
Besta frumsamda handrit: Tom McCarthy og Josh Singer - Spotlight
Besta handrit byggt á öðru verki: Charles Randolph og Adam McKay - The Big Short
Besta hreyfimyndin í fullri lengd: Inside Out
Besta kvikmyndataka: Emanuel Lubezki - The Revenant
Besta klipping: Margaret Sixel - Mad Max: Fury Road
Besta tónlist: Ennio Morricone - The Hateful Eight
Besta lagið: Writing's on the Wall e. Jimmy Napes og Sam Smith - Spectre
Besta stuttmyndin: Stutterer/Stamarinn
Besta stutta heimildamyndin: A Girl in the River
Besta stutta hreyfimyndin: Historia de un oso/Bjarnarsaga
Bestu tæknibrellur: Andrew Whitehurst, Paul Norris, Mark Ardington og Sara Bennett - Ex Machina
Besta hljóðklipping: Mark Mangini og David White - Mad Max: Fury Road
Besta hljóðblöndun: Chris Jenkins, Gregg Rudloff og Ben Osmo - Mad Max: Fury Road
Besta leikmynd: Colin Gibson og Lisa Thompson - Mad Max: Fury Road
Bestu búningar: Jenny Beavan - Mad Max: Fury Road
Besta förðun/hár: Elka Wardega og Damian Martin - Mad Max: Fury Road

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV