Spieth úr leik en McIlroy í baráttunni

20.02.2016 - 15:31
epa04809862 Rory McIlroy of Northern Ireland hits from a sand trap by the fifth green during the second round of the 115th US Open Championship golf tournament at Chambers Bay in University Place, Washington, USA, 19 June 2015.  EPA/PAUL BUCK
 Mynd: EPA
Besti kylfingur heims, Jordan Spieth, komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Northern Trust Open mótinu sem fram fer á PGA-mótaröðinni. Spieth lék annan hringinn á 68 höggum og bætti sig um ellefu högg á milli hringja en slæmur fyrsti hringur gerði útslagið hjá hinum 22 ára gamla Spieth.

„Ég verð tilbúinn í næsta mót. Ég læt þessa frammistöðu ekki hafa of mikil áhrif á mig,“ sagði Spieth eftir hringinn í gær.

Bandaríkjamaðurinn Jason Kokrak er efstur á 10 höggum undir pari og er í góðri stöðu til að vinna sitt fyrsta mót á mótaröðinni. Hann er einu höggi á undan landa sínum Chez Reavie. Nokkrir sterkir kylfingar koma í næstu sætum þar á eftir, þ. á m. Norður-Írinn Rory McIlroy sem er á samtals sex höggum undir pari.

„Ég þarf að byrja vel á þriðja hring og komast nærri efstu mönnum. Ég þarf að spila góðan og stöðugan hring - koma mér í góða stöðu fyrir lokahringinn,“ sagði Rory McIlroy.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður