Spasskí fundinn!

06.10.2012 - 00:12
Mynd með færslu
Boris Spasskí, fyrrverandi heimsmeistari í skák, er kominn í leitirnar. Í viðtali við Rás Eitt í rússneska sjónvarpinu, og ritstjóra skákritsins Whychess, kveðst Spasskí á batavegi eftir erfið veikindi, en hann fékk heilablóðfall í hittiðfyrra, og segir af og frá að hann sé elliær!

Hann vonist til þess að geta tekið þátt í kennslu í skáksskóla sem hann reki í Moskvu og lagt lokahönd á ritun endurminninga sinna sem eigi að bera titilinn Skákferill minn.

Í ágúst birti Komsomolskaja Pravda viðtal við heimsmeistarann fyrrverandi þar sem hann sagðist hafa verið í stofufangelsi í París eftir heilablóðfallið, hann hefði ekki fengið umönnun en hins vegar nóg af sljóvgandi deyfilyfjum. Hann hefði óttast um líf sitt, en tekist að flýja til Moskvu með liðsinni góðra manna.

Nokkrum dögum síðar kvaddi Iraída Spasskaja, systir Spasskís, sér hljóðs um þetta mál. Í bréfi sem birt var í Sovétskí Sport staðhæfði hún að heimsmeistarinn fyrrverandi hefði fengið bestu hjúkrun í París og samband hans við eiginkonu sína verið með ágætum.

 Í nýja viðtalinu ítrekar Spasskí að Frakklandsskeiði lífs síns sé lokið. Þangað hafi hann komið slyppur og snauður 1976, þaðan hafi hann farið slyppur og snauður í sumar. Hann sé ósáttur við eiginkonu sína, yngsta son sinn og systur sína. Hann njóti bestu hjúkrunar og endurhæfingar í Moskvu, velgjörðarmaður hans greiði kostnaðinn.

Spasskí er 75 ára. Hann var heimsmeistari í skák frá 1969 til ´72. Þá laut hann í lægra haldi fyrir Bobby Fischer hér í Reykjavík. Spasskí ræðir um Fischer í nýja viðtalinu, segist hafa tekið fráfall hans afar nærri sér. Þeir félagarnir hafi ekki glímt við samskonar vandamál, þó hafi þeir báðir átt við nýrnasjúkdóm að stríða. Nýrnasjúkdómur dró Fischer til dauða í janúar 2008.