Sparnaður að hafa lækna í hlutastarfi

06.01.2016 - 21:28
Hönd í vasa læknisslopps og hlustunarpípa.
 Mynd: sanja gjenero  -  RGBStock
Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir það ákaflega heppilegt og örugglega sparnað fyrir ríkið að sérgreinalæknar reki starfstöðvar sínar sjálfir úti í bæ. Landlæknir gagnrýndi í gær að sérfræðingar væru í hlutastörfum á Landspítalanum.

Birgir Jakobsson, landlæknir sagði í fréttum að Landspítalinn hefði ekki forsendur til að gegna hlutverki sínu. Það samræmdist ekki kröfum háskólasjúkrahúss að sérgreinalæknar væru þar í hlutastörfum á móti einkarekstri á stofum. Erfiðara væri að skipuleggja þjónustu á spítalanum vegna þessa. 

„Ég held að Landspítalinn hafi ekki möguleika og eftilvill ekki áhuga á að sinna þessari þjónustu innanhúss.“

Lengi hafi verið talað um að efla göngudeildir spítalans en það hafi ekki verið gert. Auk þess gæti spítalinn nýtt sér ákvæði í kjarasamningi lækna sem segja að umbuna megi fólki fyrir að vera í 100 prósent starfi inni á spítalanum. 

„Landspítalinn getur svo vel styrkt þá stöðu sína ef það er vilji spítalans að fólk sé þar í 100 % starfi.“

„Það þarf auðvitað að hafa skýra stefnu í þessum málum og svo þarf að fylgja henni eftir, það er ekki nóg að tala um að það þurfi að efla göngudeildirnar og svo gera það ekki.“

En er þetta ekki óheppilegt fyrirkomulag?   „Það er að mörgu leyti ákaflega heppilegt og örugglega sparnaður fyrir ríkið, miklu ódýrara að láta menn reka sínar starfsstöðvar sjálfir úti í bæ og sinna sjúklingum á mjög effektivan og ódýrari hátt heldur en ef þær væru reknar innanhúss á Landspítalanum.“

Dæmi eru um að sami sérfræðingurinn geri aðgerð á sjúklingi á Landspítalanum og vísi honum svo í meðferð á einkastofu sína úti í bæ. Getur það talist eðlilegt?

„Mér finnst það bara mjög svo eðlilegt og oft á tíðum virkar ótrúlega vel.“

Mun betra aðgengi sé að sérfræðilæknum hér á landi en t.d. í Skandinavíu og þar af leiðandi betri þjónusta.

„Við skulum ekki gleyma því að það er verið að veita hérna afbragðs góða þjónustu.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV