Sparisjóðsstjórinn í Keflavík ákærður

16.03.2016 - 21:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri í Keflavík, hefur verið ákærður fyrir að misnota aðstöðu sína sem sparisjóðsstjóri með lánveitingum til einkahlutafélaga. Fjárhæðirnar í ákærunni nema hundruðum milljóna króna.

Sparisjóðurinn í Keflavík var í miklum fjárhagskröggum eftir hrun, og féll árið 2010, rétt rúmri öld eftir að hann var stofnaður. Þegar umsvif sjóðsins voru mest, í árslok 2008, hafði hann samtals 17 afgreiðslustaði víða um land.

Eftir fall sjóðsins fól Fjármálaeftirlitið endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers að gera úttekt á tilteknum þáttum í starfsemi sparisjóðsins. Niðurstaðan var svört leyniskýrsla sem Ríkisútvarpið greindi frá 2012. Af henni má ráða að ekki hafi staðið steinn yfir steini í rekstri sjóðsins. Þar kemur meðal annars fram að stjórnun sparisjóðsins hafi að mestu verið í höndum Geirmundar Kristinssonar sparisjóðsstjóra, og eftirlitshlutverki stjórnar hafi verið ábótavant, jafnvel eftir að FME gerði mjög alvarlegar athugasemdir við starfsemi sjóðsins árið 2008.

Málefni sparisjóðsins hafa lengi verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, sem rann inn í embætti héraðssaksóknara um áramót. Nú hefur verið gefin út ákæra gegn sparisjóðsstjóranum fyrrverandi. Samkvæmt heimildum fréttastofu var ákæran birt honum í gær, en hún verður ekki gerð opinber fyrr en síðar í vikunni.

Geirmundi eru í ákærunni gefin að sök umboðssvik sem samkvæmt heimildum fréttastofu nema hundruðum milljóna króna. Ákært er fyrir tvö tilvik, hvort tveggja lánveitingar til einkahlutafélaga.

Verjandi Geirmundar segir í samtali við fréttastofu að Geirmundur lýsi sig saklausan af ákærunni. Geirmundur segist hafa aðstoðað lögreglu við rannsókn málsins, eins og honum hafi verið unnt, og upplýst allt sem hann hafi getað upplýst. Það séu honum veruleg vonbrigði hve langan tíma rannsóknin tók.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 1. apríl. Umdeildur starfslokasamningur sparisjóðsstjórans varð tilefni mikillar fjölmiðlaumfjöllunar á sínum tíma. Fall Sparisjóðsins í Keflavík kostaði skattgreiðendur um 20 milljarða króna.  

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV