Spáð fallegu vetrarveðri í dag

17.01.2016 - 07:25
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Útlit er fyrir fallegt vetrarveður í dag og á morgun, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Það verður stíf austan átt allra syðst á landinu í dag en annars hægari vindur. Léttskýjað verður víðast hvar, en skýjað með köflum suðaustan-og austantil um tíma í dag og líkur á stöku éljum.

Það verður síðan fremur hæg austlæg eða breytileg átt á morgun og þurrt og bjart víðast hvar á landinu. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan, en hiti um eða yfir frostmarki við suðurströndina.

Vetrarfærð er víða um land. Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða hálkublettir eru víða á Suðurlandi.

Hálka eða hálkublettir eru á Vesturlandi og  Vestfjörðum. Sums staðar er raunar snjór, einkum á fáfarnari leiðum. Snjór og skafrenningur er á Þröskuldum og Fróðárheiði er ófær.

Það er hálka og sums staðar snjór á vegum í Norður- og Austurlandi. Þæfingsfærð er á Fljótsheiði. Eins er hálka  með suðausturströndinni.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV