Spá meiri einkaneyslu í ár en 2007

29.02.2016 - 22:55
Mannlíf í Kringlunni. Úr sjónvarpsupptöku.
 Mynd: RÚV
Einkaneysla Íslendinga verður meiri á þessu ári en árið 2007, samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Ekki hættumerki, segir sérfræðingur.

Hagstofan áætlar að hagvöxtur hafi verið 4,2% í fyrra. Vöxturinn var knúinn áfram annars vegar af aukinni einkaneyslu, og hins vegar aukinni fjárfestingu sem að stórum hluta má rekja til vaxtar í ferðaþjónustunni. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá, sem kom út í dag, er gert ráð fyrir að vöxturinn haldi áfram, verði slétt 4% á þessu ári og 3,1% á næsta ári.

Einkaneyslan eykst meira en í fyrra, samkvæmt spánni. Vöxturinn er talinn hafa verið 4,7% í fyrra, en spáð er 5,2% vexti í ár og 4,2% vexti á næsta ári. 

Ef þessi spá gengur eftir verður einkaneyslan á þessu ári í fyrsta skipti meiri að raunvirði en á því umtalaða ári 2007. Neyslan hefur aukist undanfarin misseri, um leið og laun hafa hækkað, atvinna aukist, gengi krónunnar styrkst og verðbólga verið lítil. Í fyrra jukust til dæmis bílakaup um næstum 50% frá árinu á undan.

„Við höfum rétt úr kútnum. Landsframleiðslan náði sömu stærð og fyrir hrun árið 2014,“ segir Marinó Melsted, fagstjóri í rannsóknadeild Hagstofu Íslands. Hann segir að einkaneyslan sé aðeins á eftir því höggið hafi verið meira þar.

Marinó bendir á að landsmönnum hafi fjölgað síðan 2007, svo neyslan á mann sé minni nú en þá. Ekki sé gert ráð fyrir að neyslan á mann verði jafnmikil og fyrir hrun fyrr en eftir tvö til þrjú ár. En er þetta gott eða slæmt? Marinó segir að Ísland sé í allt annarri stöðu en fyrir hrun. Hagkerfið sé allt annað.

„Það eru ekki bara skuldir heimilinna sem eru minni, skuldir þjóðarbúsins eru umtalsvert minni, og náttúrulega í aðdraganda hrunsins vorum við með verulegan viðskiptahalla, sem við erum ekki að gera ráð fyrir núna. Það er svona meiri innistæða fyrir vexti,“ segir Marinó.

Líka verði að hafa í huga að fólk hafi haldið aftur af sér og mögulega sé komin uppsöfnuð neysluþörf. En eru þá engin hættumerki í þessu fólgin? „Ekki eins og staðan er núna, en við gætum náttúrulega fengið ennþá meiri einkaneyslu. Miðað við launavöxtinn þá er alveg möguleiki á því,“ segir Marinó. Það gæti haft árhif á afgang þjóðarbúsins af viðskiptum við útlönd og ástandið þar með versnað.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV