Snæfellsjökull að hverfa

09.02.2012 - 07:58
Mynd með færslu
Snæfellsjökull þynnist og hopar svo hratt að hann hverfur líklega innan nokkurra áratuga. Tómas Jóhannesson, jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands segir að Snæfellsjökull eins og margir minni jöklar landsins hafi minnkað hratt frá árinu tvöþúsund, enda hafi verið hlýtt þessi ár.

Samkvæmt nýjum mælingum hefur jökullinn lækkað um einn og hálfan metra að meðaltali síðustu tíu ár. Mest þynnist hann á jöðrunum, sums staðar um 30-40 metra, minna á hákollinum en þar hefur hann þynnst um nokkra metra. 
Á sama tíma hefur flatarmál hans minnkað um rúman ferkílómetra í um 10 ferkílómetra. Ef horft er aftur til byrjunar síðustu aldar þá er Snæfellsjökull helmingi minni nú en hann var að flatarmáli og ekki nema þriðjungur að rúmmáli. Tómas segir að ef ekki verður mikil breyting á tíðarfari þá hverfi Snæfellsjökull á næstu áratugum.