Smygl á fólki helsti vaxtarbroddur glæpagengja

epa04889888 A Pakistani refugee swims towards a beach as others are seen on a dinghy whose engine broke down near the shore of the Greek island of Kos after crossing the sea borders with Turkey, Greece, 20 August 2015. The Greek island is struggling with
Pakistanskur flóttamaður stingur sér til sunds við grísku eyjuna Kos. Myndin er tekin 2015.  Mynd: EPA  -  ANA-MPA
Smygl á fólki er sá angi skipulagðrar glæpastarfsemi sem vex hvað hraðast í Evrópu þessi misserin. Um 40.000 manns eru á skrá Europol, grunaðir um að tengjast þessari ólöglegu starfsemi, sem veltir á bilinu 450 - 900 milljörðum króna á ári og fer hratt vaxandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Europol um umfang smygls á flóttafólki til álfunnar. Þar segir að hinn gríðarlegi fjöldi flótta- og förufólks á síðasta ári hafi haft mikil áhrif á starfsemi evrópskra glæpagengja.

Glæpasamtök hafi verið fljót að lagast þessum nýju aðstæðum og finna leiðir til að hagnast á örvæntingu fólksins.

Yfir 90% þeirra sem flýja til Evrópu leita aðstoðar þriðja aðila til að komast þangað. Í nær öllum tilfellum eru það glæpamenn, ýmist á eigin vegum eða skipulagðra glæpasamtaka, sem útvega þeim þá þjónustu sem þörf er á, svo sem flutning, fæði, húsnæði og fölsuð skilríki, enda fátt annað í boði. Allt er þetta selt ofurdýru verði og ósjaldan er förufólkið þvingað til að vinna upp í skuldir sínar, myrkranna á milli við ömurlegar aðstæður. Mansal og kynlífsþrælkun eru einnig algengir fylgifiskar þessarar glæpastarfsemi.

Glæpalýðurinn sem hana stundar kemur frá yfir 100 löndum, en stærstu og umsvifamestu gengin eru frá Búlgaríu, Ungverjalandi, Írak, Kósóvó, Pakistan, Póllandi, Rúmeníu, Serbíu, Sýrlandi, Svíþjóð og Tyrklandi.

Fjölmargar borgir í Norður-Afríku, Miðausturlöndum og Evrópu eru nefndar til sögunnar sem miðstöðvar þessarar starfsemi, þar á meðal bæði Stokkhólmur og Kaupmannahöfn.

Verkefni þeirra sem grunaðir eru um aðild að smyglinu eru af ýmsum toga og þeir eru langt í frá allir beinlínis meðlimir í glæpagengjunum sem skipuleggja það. Sumir eru bílstjórar, aðrir falsa skilríki, enn aðrir sjá um að múta embættismönnum, einhverjir sjá um peningaþvætti, vopnakaup, útvegun bíla, báta, farmiða og felustaða og svo má áfram telja.

Á mánudag opnaði Europol nýja miðstöð stofnunarinnar, European Migrant Smuggling Centre (EMSC), hvers starfsemi snýst eingöngu um að aðstoða aðildarríki Evrópusambandsins í baráttunni við smygl skipulagðra glæpagengja á fólki til álfunnar.  

Í skýrslu Europol kemur enn fremur fram, að engar sannanir hafi fundist fyrir því, að hryðjuverkamenn nýti sér þjónustu smyglaranna til að komast til Evrópu svo nokkru nemi.  

Skýrsluna, sem er á ensku, má nálgast hér

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV