Smjörskortur í Noregi

06.12.2011 - 18:50
Mynd með færslu
Smjörbirgðir eru nánast á þrotum í Noregi og eru landsmenn uggandi vegna jólaundirbúningsins. Íslendingar hafa verið beðnir um að hlaupa undir bagga.

Lítið framboð á mjólk vegna ótíðarinnar í sumar og strangir framleiðslukvótar eru helstu skýringarnar á þessum mikla smjörskorti í landinu. Stjórnvöld hafa reynt að bregðast við með því að lækka tolla og fella niður refsingar fyrir umframframleiðslu en það dugar ekki til. Smjörhillur kjörbúðanna tæmast jafnóðum og þær eru fylltar. Norskir mjólkurframleiðendur reyna að kaupa smjör frá grannríkjunum og hefur Mjólkursamsalan meðal annars fengið fyrirspurnir. Þar á bæ eru menn ekki aflögufærir, enda næg eftirspurn eftir smjöri hérlendis á aðventunni.