Skref í að vinna gegn kynbundnum launamun

14.02.2013 - 08:42
Mynd með færslu
Líta má á stofnanasamning hjúkrunarfræðinga sem fyrsta skrefið í að vinna gegn kynbundnum launamun segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra. Þá þurfi að horfa til fleiri hópa sem halli á.

Guðbjartur ræddi nýgerðan stofnanasamning Landspítala og hjúkrunarfræðinga í Morgunútvarpinu. Guðbjartur útlistaði ekki hvernig yrði greitt fyrir stofnanasamninginn, umfram það framlag sem fæst úr ríkissjóði. Aukaframlag úr ríkissjóði er um 400 milljónir en forstjóri Landspítala sagði í fréttum í gær að kostnaður umfram það gæti verið á bilinu 150 til 250 milljónir. „Nú verða menn í fyrsta lagi að horfa til þess að Landspítalinn er með 38 þúsund milljónir í rekstrarfé á ári. Að hluta til leggja þeir til viðbót við það sem við höfðum lagt til sem ríkisstjórn.“

Ljóst er að fleiri hópar vilja launahækkun. Síðast í gærkvöldi lýsti formaður geislafræðinga þeirri skoðun í fréttum RÚV að sambærileg kjarabót og hjúkrunarfræðingar fá dygði ekki til að sætta geislafræðinga. Guðbjartur segir að í fyrrahaust hafi verið ákveðið að fara í þá vinnu að draga úr launamun kynjanna. „Það er okkur til vansa að þarna skuli vera óútskýrður launamunur milli kynjanna. Það er ákveðið að fara í jafnlaunaátak og þegar menn skoða það þá sjá menn að það eru heilbrigðisstéttirnar sem hallar töluvert á. Þannig að það má segja að þarna sé verið að koma til móts við það fyrsta skrefið, og það þarf auðvitað að vera fleiri en hjúkrunarfræðingar.“