Skotárás í skóla í Kanada

22.01.2016 - 22:16
The outside of La Loche Community School is shown on Friday Jan. 22, 2016. Prime Minister Justin Trudeau said the shootings occurred at a high school and another location but did not say where else. School shootings are rare in Canada. The grade 7 through
 Mynd: AP  -  CP
Fjórir eru látnir og tveir í lífshættu eftir skotárás í Saskatchewan-fylki í Kanada. Ungur karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um árásina. Árásin var gerð í skóla og á öðrum ótilgreindum stað.

Skólinn heitir La Loche Community School og er skóli samfélags frumbyggja í norðurhluta Saskatchewan-fylkis. Árásin var gerð í byggingu sem hýsir eldri nemendur. Að sögn nemenda við skólann heyrðust sex eða sjö skothvellir um klukkan sjö í kvöld, en þá var klukkan eitt eftir hádegi í La Loche. Kanadíska fréttastofan CBC hefur eftir sjónarvottum að árásarmaðurinn hafi annað hvort verið núverandi eða fyrrum nemandi við skólann.

Kevin Janvier, bæjarstjóri La Loche, sagði í samtali við Associated Press fréttastofuna að dóttir hans hafi látið lífið í árásinni, en hún var kennari við skólann. Hann sagði einnig að árásarmaðurinn hafi fyrst látið til skarar skríða heima hjá sér og myrt tvo bræður sína.

Trudeau sagði í tilkynningu frá Davos í Sviss að þjóðin syrgi með íbúum La Loche og Saskatchewan ríkis.
Skotárásin er sú mannskæðasta í Kanada í 26 ár.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV