Skógareldar leggja bæ í rúst í Ástralíu

08.01.2016 - 02:15
epa05031789 A handout picture made available on 19 November 2015 shows a bushfire burning out of control near Esperance, on Western Australia's south coast, Australia, 18 November 2015. Police announced earlier this week that four people had been
 Mynd: EPA  -  AAP/MICHAEL SAINTY
Tugir heimila og fyrirtækja eru talin ónýt eftir mikla skógarelda í vesturhluta Ástralíu. Um 95 íbúðarhús urðu eldinum að bráð í bænum Yarloop, suður af Perth. Kröftugir vindar blása upp eldana og ná logar allt upp í 50 metra hæð að sögn sjónarvotta.

Þriggja íbúa bæjarins er saknað. Fjórir slökkviliðsmenn hafa slasast í baráttunni við eldana og einn slökkvibíll eyðilagðist í eldinum.
Eldarnir hafa náð yfir 500 ferkílómetra svæði á rúmum sólarhring. Íbúum í Waroona og Harvey, sem eru nokkrum tugum kílómetra frá Yarloop, hefur verið gert að yfirgefa heimili sín.

Hiti fór upp í 40 gráður á þessu svæði í gær en spáin fyrir daginn í dag gerir ráð fyrir 34 gráðum og hvassviðri. Skógareldar geisuðu á svæðinu á svipuðum tíma í fyrra og þurftu íbúar Waroona þá einnig að yfirgefa heimili sín.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV