Skjöl Svavars á Þjóðskjalasafnið

15.11.2012 - 19:40
Mynd með færslu
Svavar Gestsson fyrrverandi ráðherra, formaður Alþýðubandalagsins og síðast sendiherra afhenti í dag Þjóðskjalasafninu einkaskjöl sín til varðveislu. Átök í Alþýðubandalaginu, fjármál Þjóðviljans og samskipti við Austur-Þýskaland er meðal þess sem þar er að finna.

Fimm hillumetrar frá Svavari, sem áður voru í 60 til 70 pappakössum, bætast við þá 40 þúsund hillumetra sem í Þjóðskjalasafninu eru. Eiríkur G. Guðmundsson, settur þjóðskjalavörður, veitti skjölunum viðtöku og lýsti ánægju sinni með að stjórnmálamenn létu safninu skjöl í té.

Átök í Alþýðubandalaginu

„Það sem að mönnum finnst kannski mest spennandi eru einstök atriði, til dæmis fjármál Þjóðviljans,“ segir Svavar Gestsson. „Þau eru hér í smáatriðum. Okkur var oft nuddað upp úr því að við værum með peninga með einhverjum undarlegum hætti. Það er hægt að sjá að svo var nú alls ekki til dæmis í þessum gögnum. Fjármál Þjóðviljans, fjármál Alþýðubandalagsins, átökin í Alþýðubandalaginu, bæði átökin við Ólaf Ragnar Grímsson og Hannibal Valdimarsson. Þetta er allt þarna.“

Ekkert um Icesave

Svavar var gagnrýndur fyrir Icesavesamningana en hann var formaður í fyrri samninganefndinni. „Ég fer yfir stöðu þeirra mála, þar sem kom í ljós að þjóðin vildi ekki semja, hún vildi frekar fá dóm og dómurinn kemur núna um jólin. Vonandi verður hann ekki slæmur. En þau skjöl eru öll í skjalasafni stjórnarráðsins.“

Vitlaus kaldastríðsumræða

Þá eru skjöl á stafrænu formi um samskipti Íslands og Austur-Þýskalands. Þegar Svavar var þar í námi taldi austur-þýska leyniþjónustann að hann ynni fyrir bandarísku leyniþjónustuna. Það kom Svavari á óvart: „Þegar ég áttaði mig á að þeir héldu að ég væri að vinna fyrir Ameríkanana þá fann ég svo vel hvað þessi kaldastríðsumræða var öll vitlaus. Hvað hún var ósanngjörn, uppskrúfuð og heimskuleg. Og það kemur að einhverju leyti fram þarna, en það kemur líka fram í bókinni minni.“

Skjölin sem Svavar afhenti Þjóðskjalasafninu í dag notaði hann til að rita sjálfsævisögu sína „Hreint út sagt“ sem er nýkomin út.