Skiptir ekki um skoðun á refsiaðgerðum

07.01.2016 - 08:06
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkirsráðherra segist ekki ætla að skipta skoðun og hætta þátttöku í refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar.

Hagmunir Íslands vegi þyngra en hagsmunir einstakra sjávarútvegsfyrirtækja. Ísland er í hópi um 40 vestrænna ríkja sem tekur þátt í refsiaðgerðunum gegn Rússlandi vegna brota Rússa á fullveldi Úkraínu. Rússar settu innflutningsbanni á íslenskar vörur um miðjan ágúst í fyrra og telja útgerðarmenn að tapið vegna þess nemi allt að tólf milljörðum króna. 

Rætt var við Gunnar Braga um málið í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

„Menn geta gert hvað sem þeir vilja varðandi mig, ég mun ekki skipta um skoðun í þessu máli því það er rangt að hverfa frá þessum þvingunum fyrir þessa milljarða sem þarna eru,“ segir Gunnar Bragi og vísar til þess taps sem útgerðin er sögð hafa orðið fyrir vegna þvingana sem Rússar hafa beitt Ísland á móti frá því í ágúst. Tapið sé hinsvegar mun minna en talið var í upphafi þegar talað hafi verið um að tapið yrði um 37 milljarðar. „[Þetta tap skiptir] okkur máli, við skulum ekki gera lítið úr því, en það eru aðrir hagsmunir sem skipta okkur miklu meira máli. Fyrir sjávarútveginn skiptir fátt meira máli en alþjóðasamningar og alþjóðalög, þegar kemur að því að verja landhelgina, rökstyðja af hverju við megum veiða makríl þegar hann syndir inn í okkar lögsögu og svo framvegis. Þannig að ég hvet þessa dugmiklu og góðu aðila í sjávarútveginum til að slaka á og virkilega taka hagsmuni Íslands umfram eigin hagsmuni.“

Skiptar skoðanir hafa verið um málið innan ríkisstjórnarflokkanna. Gunnar Bragi minnir á að það hafi verið samþykkt í ríkisstjórn að fara í þessar þvinganir.  „Ég held að það séu ekki skiptar skoðanir um það að taka þátt í þessu, ég hef ekki heyrt það eða tillögur komið fram um að hætta þessu. Auðvitað eru menn að ræða sín á milli hvort þetta sé rétt aðferðafræði, hvort við eigum að taka þátt í því að beita þvingunum yfirleitt. Ég segi hiklaust að þetta sé verkfæri sem á að nota í alþjóðasamskiptum til að reyna að koma á lögum og reglu og fá menn til að virða alþjóðasamninga.“  Þetta sé leið til að koma í veg fyrir styrjaldir. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi