Skilmáli vegna sölu Valitor enn á huldu

10.02.2016 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Landsbankinn hefur fengið heimild Arion banka til að gera nánari grein fyrir skilmála í samningi vegna kaupa Arion á 38 prósenta hlut Landsbankans í Valitor. Í ljósi samþykkis Arion banka óskaði fréttastofa eftir að fá umræddan skilmála afhentan hjá Landsbankanum, sem bankinn hefur synjað.

Landsbankinn seldi 38 prósenta hlut sinn í kortafyrirtækinu Valitor til Arion banka fyrir 3,6 milljarða króna í lokuðu söluferli í lok árs 2014. Valitor er bæði útgefandi og aðalleyfishafi VISA og á von á allt að fimmtán milljarða króna greiðslu, samkvæmt heimildum fréttastofu, vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe. Greiðslan er vegna valréttar um viðskipti milli kortafyrirtækjanna.

Fær Landsbankinn meira?

Landsbankinn fær hluta af greiðslunni, samkvæmt skilmála í kaupsamningi milli bankans og Arion banka, en ekki hefur fengist staðfest hvort Landsbankinn fái greitt umfram það sem bankanum ber að fá í sinn hlut, vegna útgáfu hans á Visa kortum, eða í samræmi við fyrri hlutafjáreign hans í kortafyrirtækinu. Miðað við fyrri eignarhluta Landsbankans í Valitor hefði bankinn því mögulega átt rétt á rúmlega þriðjungi greiðslunnar vegna samruna Visa fyrirtækjanna út í heimi.

Í frétt RÚV á sunnudaginn sagði bankastjóri Landsbankans að við gerð samkomulagsins hafi verið tekið tillit til viðskipta bankans við Valitor í fortíð og framtíð, sem og eignarhaldsins. Þá sagðist hann ekki geta svarað frekari spurningum fréttastofu um innihald skilmálans, því kaupsamningurinn við Arion væri bundinn trúnaði, en hann hafi óskað eftir heimild hjá Arion til að gera nánari grein fyrir samningnum.

Ekki búið að ákveða hvernig upplýsingagjöf verður háttað

Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka, hefur bankinn veitt Landsbankanum leyfi til að gera nánari grein fyrir umræddum skilmála í kaupsamningnum. 

Í skriflegu svari Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, þar sem hann synjar beiðni fréttastofu um skilmálann segir hann: „Við erum ekki búin að ákveða með hvaða hætti við gerum grein fyrir þessu, hvort það komi fram í svari til Bankasýslunnar eða bíði þar til við birtum uppgjör 25. febrúar.“

Bankasýslan vill upplýsingar frá Landsbankanum

Bankasýsla ríkisins sendi Landsbankanum bréf þann 26. janúar síðastliðinn þar sem stofnunin óskar eftir upplýsingum um sölumeðferð eignarhluta í eigu Landsbankans. Þar óskar Bankasýslan meðal annars eftir rökstuðningi Landsbankans fyrir því að ekki var gerður sambærilegur skilmáli við sölu á hlut bankans í Borgun, og í tilfelli Valitor. Einnig að bankinn upplýsi um hvaða vitneskju hann hafi búið yfir varðandi eignarhald eða hlutdeild Valitor og Borgunar í Visa Europe eða söluandvirði félagsins þegar kaupsamningar voru undirritaðir. Bankasýslan hefur gefið Landsbankanum frest til næstkomandi föstudags til að svara bréfi stofnunarinnar.

Arion veitir heimild, en með fyrirvara þó

Þá segir bankastjóri Landsbankans, í áðurnefndu skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu, að samþykki Arion banka fyrir upplýsingum um skilmálann í kaupsamningnum sé fyrirvörum háð.

„Heimild Arion er með fyrirvara um að við berum undir þá og fáum samþykki hvernig við fjöllum um (skilmálann),“ skrifar Steinþór í svarinu. „Þangað til við höfum tekið ákvörðun um þetta mál, og borið undir Arion og fengið samþykki, erum við ekki að fara að senda eitthvað frá okkur.“

Fréttastofa hefur sent Arion banka sambærilega fyrirspurn og send var Landsbankanum, þar sem þess er óskað að umræddur skilmáli verði afhentur eða bankinn upplýsi nákvæmlega um innihald hans, sjái bankinn sér ekki fært að afhenda hann.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV