Skíðasvæði opin víða

24.03.2016 - 08:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skíðasvæði víða um land eru opin í dag, skírdag og má búast við að margir noti tækifærið og skelli sér á skíði yfir páskana.

Skíðasvæðið á Siglufirði verður opið milli tíu og fjögur í dag, færið er troðinn þurr snjór og allt troðið í gærkvöld, segir í tilkynningu frá skíðasvæðinu. Allar brekkur eigi því að halda nokkuð vel. Heiðskírt er þar og hiti sagður vera í kringum frostmark og því útlit fyrir gott veður í dag. 
Á skíðasvæðinu er hólabraut, bobbbraut og ævintýraleið við Neðstasvæðið og pallur og Hólabraut á T-lyftusvæði. Þá er göngubraut á Hólssvæði þriggja kílómetra hringur. 

Í Hlíðarfjalli á Akureyri er einnig prýðilegt veður, einnar gráðu hiti og logn. Þar verður opið frá níu til fjögur í dag og skíðaskóli fram yfir hádegið. 

Skíðasvæðið í Stafdal á Seyðisfirði er opið frá klukkan tíu til fjögur í dag. Þar var aust-suðaustan sex metrar á sekúndu, þriggja stiga frost og éljagangur klukkan átta í morgun. 

Skíðasvæðið á Ísafirði er opið í dag. Þar var um einnar gráðu hiti við skíðaskálann í Seljalandsdal og aust-norðaustan einn metri á sekúndu. Á vefsíðu skíðasvæðisins kemur fram að mesta hviðan hafi mælst fimm metrar á sekúndu. 

Skíðasvæði Tindastóls verður opið í dag frá klukkan ellefu til fjögur. Þar var veður með besta móti um níu leytið í morgun, austan fjórir metrar á sekúndu, hiti við frostmark og sólskin, að því er fram kemur í tilkynningu. 

 

Skíðasvæðið á Dalvík er opið til klukkan fjögur í dag og svo aftur í kvöld milli átta og tíu. Þá verður kveikt upp í grillinu og leikin tónlist í fjallinu, segir í tilkynningu. Búið er að setja upp ævintýrabraut fyrir börnin og Heldrimanna-mót fer fram í fjallinu í dag.

Tírólahátíð í Austfirsku Ölpunum Oddsskarði stendur yfir um Páskana. Þar brettadagur í dag og opið til klukkan fimm og svo aftur frá átta í kvöld til tíu. 


Skíðasvæðið í Bláfjöllum og Skálafelli verður lokað í dag, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu skíðasvæðisins

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV