Skaftafellsjökull sést ekki lengur – myndir

08.03.2017 - 13:26
Myndasyrpa sem Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði og fyrrverandi landvörður í Skaftafelli, hefur tekið undanfarin fimm ár sýnir á sláandi hátt hvernig Skaftafellsjökull hefur verið að þynnast undanfarin ár. Á mynd Guðmundar frá 2012 sést hann vel handan hæðarinnar fyrir austan þjónustumiðstöðina í Skaftafelli, en á myndinni sem tekin var fyrir nokkrum dögum sést jökullinn ekki lengur. „Það fylgir því ákveðinn söknuður að skoða þessar myndir,“ segir Guðmundur.

„Ég er búinn að vera þarna í rúm sex ár og tók fyrstu myndina um miðjan febrúar árið 2012,“ segir Guðmundur. „Fyrstu myndina tók ég í rauninni fyrir tilviljun þegar ég var að prófa nýja linsu sem ég eignaðist. Nokkru síðar var ég að skoða þessar myndir og datt í hug að fara á sama stað að ári og taka eins mynd til að sjá muninn.“

Allar teknar á sama stað og á svipuðum tíma

Myndirnar eru allar teknar af varnargarði við Morsá, í áttina að þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli, þar sem Skaftafellsjökull sást handan við hæðina. „Allar þessar myndir eru teknar á svipuðum tíma árs, frá sama stað, með sama sjónarhorni, með sömu linsu og reyndar sömu myndavélinni og það er alveg greinilegt hvað er að eiga sér stað. Skriðjöklar geta verið að ganga fram og til baka milli ára, en þynningin fer ekki á milli mála í þessu tilviki." 

Ákveðinn söknuður 

Guðmundur segir að það sé erfitt að taka eftir svona breytingum þegar maður býr á staðnum og hefur jökulinn fyrir augum á hverjum degi. „En þegar maður sér þessar myndir og samanburðinn, þá verður þetta nokkuð sláandi. Í raun má segja að það fylgi því ákveðinn söknuður að skoða myndirnar. Það eru að sjálfsögðu ekki nýjar fréttir að jöklar séu að hopa og minnka en þarna birtist þetta á sterkan hátt. Við fáum talsvert af hópum erlendra skólabarna og ferðamanna til okkar og segjum þeim frá jöklunum hér í kring og þeim finnst þessar myndir vera sláandi.“

Þessari frétt hefur verið breytt. Í upphaflega útgáfunni var Guðmundur Ögmundsson ranglega sagður þjóðgarðsvörður í Skaftafelli. Hið rétta er að hann er þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfri í Vatnajökulsþjóðgarði og fyrrverandi landvörður í Skaftafelli.