Sjúkraflutningamönnum full alvara

18.05.2017 - 19:10
íslenskur sjúkrabíll.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Sjúkraflutningamenn á Blönduósi hafa frestað uppsögnum um eina viku í von um að kjaradeila þeirra leysist. Bæjaryfirvöld á Blönduósi hafa áhyggjur af stöðunni. 

Sjö sjúkraflutningamenn starfa á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Blönduósi. Sex þeirra, sem allir eru í hlutastarfi, sögðu upp í apríl og áttu að hætta í þessari viku. Þeir hafa hins vegar frestað uppsögnunum um viku. „Við erum að reyna að taka smá samfélagslega ábyrgð, það er nú eiginlega svoleiðis,“ segir Þórður Pálsson, sjúkraflutningamaður á Blönduósi. 

Ekki greidd laun samkvæmt kjarasamningi 

Sjúkraflutningamenn í hlutastarfi, sem eru um 90 á landsvísu, eru ósáttir við kjör sín og að ekki hafi verið gerður nýr kjarasamningur við þá líkt og samið var um í árslok 2015. Samningafundur í deilunni var haldinn í dag og er annar boðaður á morgun.

„Eins og staðan er í dag er okkur ekki greidd laun samkvæmt kjarasamningi heldur samkvæmt samkomulagi við ríkið. Við erum með lélegri tryggingar en þeir sem eru í föstu starfi og veikindarétturinn mjög lítill,“ segir Þórður. 

Sjúkraflutningamönnum full alvara

Þar með er ekki öll sagan sögð því að nokkur launamunur er á milli sjúkraflutningamanna innan HSN og þar sitja sjúkraflutningamenn á Blönduósi ekki við sama borð og starfsbræður þeirra á Siglufirði eða á Húsavík. Þetta á rætur í því að þegar sex heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi voru sameinaðar í eina þá kom starfsfólk inn á ólíkum forsendum og ekki hefur tekist að jafna kjörin. 

„Mér finnst sko vera alveg óboðlegt að sjúkraflutningamenn hér á Blönduósi séu á öðrum kjörum en aðrir sjúkraflutningamenn á starfssvæði heilbrigðisstofnunarinnar,“ segir Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar. 
 
Þórður segir að sjúkraflutningamönnum sé full alvara og muni leggja niður störf í næstu viku ef ekki næst samkomulag. „Já, það er bara þannig. Við ætlumst til þess að samningamenn gangi frá þessu bara,“ segir hann.