Sjúkraflug til Grænlands

01.01.2014 - 17:54
Mynd með færslu
Í morgun fór Twin Otter skíðaflugvél frá Norlandair á Akureyri í sjúkraflug norður til Daneborgar á norðausturströnd Grænlands.

Sækja þurfti danskan hermann úr tólf manna hundasleðaherdeild sem þar hefur bækistöð. Daneborg er langt í norðri, um tveggja tíma flug norður af Scorsebysundi. 

„Það var klukkan tvö í gær sem við fengum beiðni um að sækja hann, grunur leikur að hann sé tvíbrotinn á löppinni. En því miður þá var ófært þar vegna frostþoku, svo við gerðum vélina klára en fórum klukkan átta í morgun", segir Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norland Air.   

Og hvernig er að fljúga á þessum slóðum á þessum tíma?

„Það er mjög erfitt, það myrkur, engin dagsbirta þarna, þannig að veðrið þarf að vera mjög gott svo það sé hægt að fara þarna og það var mjög fínt í morgun heiðskírt og stjörnubjart. Við lendum þarna rétt við herstöðina því flugvöllurinn er ófær vegna snjóa", segir Friðrik. 

Friðrik segir að langt sé síðan farið var í sjúkraflug þarna norður eftir svona um hávetur: „Til allrar guðslukku er þetta nú ekki algengt. Mig minnir að séu svona tíu ár síðan þurfti að sækja þarna slasaðan manna síðast".

Friðrik segir að aðstæður séu erfiðar en fyrir reynda flugmenn í góðu veðri sé þetta ekki mikið mál. Farið verður með Danann á sjúkrahús á Akureyri og svo fer hann að öllum líkindum heim til Danmerkur.