Sjómannasamningur í höfn

14.11.2016 - 01:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samningar náðust milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi rétt fyrir miðnætti. Um klukkustund tók að leggja lokahönd á samninginn áður en skrifað var undir hann um klukkan eitt í nótt. Verkfalli sjómanna, sem staðið hefur yfir frá því á fimmtudag, verður frestað klukkan átta á þriðjudagskvöld.

Sjómannafélag Íslands og Sjómannafélag Grindavíkur gengu af samningafundinum og á því ekki aðild að kjarasamningnum. Um 400 eru á kjörskrá hjá Sjómannafélagi Íslands og um 500 hjá Sjómannafélagi Grindavíkur. Samningar eru því enn lausir hjá þeim en fundir verða á næstu dögum.

Meðal þess sem samið var um er fiskverð. Í viðskiptum útgerðar og vinnslu í eigu sömu aðila skal fiskverð að jafnaði taka mið af 80 prósentum af markaðsverði á fiskmarkaði. Þá var kauptrygging hækkuð, orlofsréttur aukinn og 130 prósenta aukning á fjármunum til kaupa á hlífðarfötum samþykkt. Samkvæmt fréttatilkynningu SFS var einnig samið um að óháð úttekt á öryggi og hvíldartíma sjómanna fari fram og sáttir náðust um svokallað nýsmíðaákvæði frá 1. desember 2023.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV