Sitja uppi með hundruð milljóna kostnað

14.01.2016 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: 360°  -  Já.is
Bæjaryfirvöld á Akureyri segjast hafa greitt hundruð milljóna króna með rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila í bænum síðustu ár þrátt fyrir að ríkið eigi að fjármagna reksturinn lögum samkvæmt. Samkvæmt skýrslu sem KPMG hefur unnið fyrir bæinn duga daggjöld sem ríkið greiðir aðeins rétt rúmlega fyrir launakostnaði öldrunarheimilanna en kostnaður umfram þau leggst á bæinn.

Í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ er kallað eftir ákvörðunum um framtíðarfyrirkomulag á rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar og uppgjöri við ríkið vegna þess kostnaðar sem hefur fallið á bæinn.

Síðasti samningur um rekstur öldrunarheimilanna rann út í árslok 2008 og kostnaður Akureyrarbæjar á hvern íbúa sem er orðinn 67 ára eða eldri hækkaði um 148 prósent á föstu verðlagi milli áranna 2007 til 2014. Að því er fram kemur í fréttatilkynningu bæjarins skýrist þessi hækkun fyrst og fremst af viðvarandi og vaxandi halla á rekstri öldrunarheimilanna. Helstu áhrifaþættir eru sagðir þeir að launakostnaður hafi aukist en daggjaldatekjur lækkað að raunvirði. Árið 2014 var heildarkostnaður við rekstur öldrunarheimilanna fimmtán prósentum hærri en sem nam framlagi ríkisins. 93 prósent daggjalda fóru í launakostnað.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV