Símtalsupptaka tilefni varðhalds

07.01.2016 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Upptaka af símtali milli lögreglumannsins hjá fíkniefnadeild lögreglunnar, sem sat í gæsluvarðhaldi, og manns sem hefur áður verið dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot, var tilefni til handtöku lögreglumannsins milli jóla og nýárs. Samtalið gefur til kynna að lögreglumaðurinn þiggi um hundrað þúsund krónur í greiðslur í skiptum fyrir trúnaðarupplýsingar.

Þetta herma heimildir fréttastofu. Löreglumaðurinn er nú laus úr haldi en honum var sleppt í dag. Það átti að renna út á morgun.

Lögreglumaðurinn hefur starfað í um áratug hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Símtalsupptakan sem lögreglan hefur undir höndum og var tilefni handtöku lögreglumannsins var tekin af manni á fertugsaldri sem handtekinn var í gær. Hann var sá sem lögreglumaðurinn ræddi við í samtalinu. Sá hefur ítrekað verið tekinn fyrir fíkniefnabrot og var 2011 dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Hundrað þúsund krónur nefndar í símtalinu

Samkvæmt heimildum fréttastofu gefur þessi maður til kynna í samtalinu að lögreglumaðurinn þiggi eitt hundrað þúsund krónur frá sér í skiptum fyrir trúnaðarupplýsingar. Lögreglumaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald 29. desember síðastliðinn en sleppt í dag eftir skýrslutöku. Lögreglumaðurinn hefur verið yfirheyrður þrisvar vegna málsins frá því hann var handtekinn og sat hann um tíma í einangrun á Litla-Hrauni vegna rannsóknarhagsmuna. 

Hafa skoðað símayfirlit og bankareikninga

Maðurinn sem tók upp símtalið var handtekinn í gær vegna málsins en í ljós kemur síðar í dag hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum. Ítarlegar húsleitir hafa verið gerðar á heimilum beggja mannanna. Þá hafa símayfirlit og bankareikningar mannanna verið rannsakaðir. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur þó ekki verið sannað að lögreglumaðurinn hafi þegið peningana frá manninum.

Málið er fordæmalaust hjá lögregluembættinu. Sannist það að lögreglumaðurinn hafi þegið greiðslur af manninum, í tengslum við störf sín fyrir fíkniefnadeild lögreglunnar, hefur hann gerst  brotlegur við 128.gr. almennra hegningarlaga um greiðslur til opinberra starfsmanna. Slíkt brot varðar allt að 6 ára fangelsi. 

Ekki hefur náðst í Ómar Örn Bjarnþórsson verjanda lögreglumannsins við vinnslu fréttarinnar. 

Athugasemd ritstjóra: Fréttin hefur verið uppfærð. Þegar hún var skrifuð sat lögreglumaðurinn í gæsluvarðhaldi en honum hefur verið sleppt.