Sigruðust á íslensku óveðri til að finna öldur

12.01.2017 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚv
Ljósmyndarinn Chris Burkard frumsýndi í gær stiklu úr kvikmyndinni Under an Arctic Sky sem hann gerði með kvikmyndagerðamanninum Ben Weiland hér á landi. Myndin var í byrjun desember árið 2015 þegar eitt mesta óveður í aldarfjórðung gekk yfir landið.

Í myndinni leitar hópur brimbrettakappa að tækifærinu til að standa á brimbretti undir dansandi norðurljósum. Þar sést hvernig þeir keyra í gegnum óveðrið sem gekk yfir landið í byrjun desember árið 2015 en þá var óvissustigi lýst yfir á öllu landinu.

Í stiklunni, sem Burkard birti á Vimeo-síðu sinni, eru mörg mögnuð myndskeið af brimbrettaköppunum þar sem þeir leika listir sínar.

Halla Ólafsdóttir, fréttamaður RÚV á Ísafirði, ræddi við hópinn þegar hann lék sér á öldunum í Ísafjarðardjúpi á sínum tíma og þá fullyrti einn þeirra að þetta væru „bestu köldu öldurnar í heiminum.“

Burkard hefur margoft komið til Íslands en frægust þeirra er sennilega þegar hann kom hingað með kanadísku poppstjörnunni Justin Bieber. Sú heimsókn varð síðan að myndbandi við lagið I'll Show en horft hefur verið 332 milljónum sinnum á You Tube. 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV