Sigmundur um Borgunar-málið: „Augljóst klúður“

25.01.2016 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, er sammála því að þingið eigi að skoða sölu Landsbankans á greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun – upplýsa þurfi hvernig þetta, sem virðist „augljóst klúður,“ gat gerst. „Mér finnst eðlilegt að þingið fylgi þessu eftir – það hefur sín úrræði til að fá svör við þeim spurningum sem hafa vaknað og ég styð þingið í því.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði Sigmund Davíð út í Borgunar-málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma við upphaf þingfundar í dag.

Árni Páll spurði hvort Sigmundur væri sammála því að rannsaka þyrfti þetta mál í þaula og reka atburðarásina og ákvarðanir. Þetta væri mikilvægt þar sem til stæði sala ríkiseigna. Hann spurði forsætisráðherra hvort hann myndi beita sér fyrir því að þingið fengið málið til rannsóknar eða hvort hann stæði jafnvel fyrir rannsókn sjálfur að eigin frumkvæði.

Sigmundur kvaðst sammála mati Árna Páls að þetta þyrfti að upplýsa – hann gekk svo langt að kalla söluna á Borgun „augljóst klúður.“ „Mér finnst eðlilegt að þingið fylgi þessu eftir – þingið hefur úrræði til að fá svör við spurningum og ég styð þingið í því.“

Landsbankinn greindi frá því í morgun að hann ætlaði að afhenda Alþingi samantekt um sölu bankans á hlut hans í Borgun. Samantektin var birt á vef bankans. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að bankaráð Landsbanka Íslands hefði ekki fundað sérstaklega um sölu á hlut bankans í Borgun. 

Hart hefur verið sótt að Landsbankanum eftir að í ljós kom að kortafyrirtækin Borgun og Valitor hagnast um milljarða vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe. 

Þegar Landsbankinn seldi 38 prósenta hlut sinn í Valitor til Arion banka, var sett inn ákvæði í kaupsamninginn um viðbótargreiðslu frá bankanum ef að yfirtökunni yrði. Viðlíka ákvæði er hins vegar ekki að finna í samningnum vegna umdeildrar sölu Landsbankans á 31,2 prósenta hlut bankans í Borgun, sem seldur var fjárfestum fyrir 2,2 milljarða króna á bak við luktar dyr í lok árs 2014.