Sigmundur Davíð segir Hafnartorg skipulagsslys

09.01.2016 - 07:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir fyrirhugaða uppbyggingu á svokölluðu Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur vega að miðbænum og því yfirbragði sem þar er á byggðinni. „Ef þarna yrði byggt með þeim hætti sem dregið hefur verið upp á þessum myndum yrði það líklega seinna álitið mesta skipulagsslys í miðbæ Reykjavíkur í seinni tíð og jafnvel alla tíð,“ segir Sigmundur Davíð við Morgunblaðið í morgun.

Eins og fram kom í fréttum í vikunni verða sjö hús reist við Tollhúsið. Landstólpi vann hugmynd og útlit húsanna með PK arkitektum, teikningar og byggingaráform hafa fengið grænt ljós frá skipulagsyfirvöldum borgarinnar og er hugmyndin að tengja reitinn í allar áttir - að gamla bænum, að Hörpu og út í Vesturhöfnina.

Hafnargarðarnir margumræddu verða í bílakjallaranum og verða sýnilegir úr göngugötu sem sker reitinn. Bílakjallarinn er sameiginlegur með Hörpu og tekur um 1000 bíla.

Sigmundur Davíð segir við Morgunblaðið að þarna sé gert ráð fyrir of miklu byggingarmagni á reit sem ekki sé ýkja stór og sé partur af elsta hluta Reykjavíkur, Kvosinni. Fráleitt sé að reisa stórgerðar tískubyggingar í gömlu Kvosinni og skemma þar með það litla sem til sé af sögulegum, sérstæðum miðbæ.  „Við myndum til dæmis aldrei fara að byggja bárujárnshús í gömlum stíl í Borgartúninu, við hlið skrifstofubygginga þar.“

Sigmundur Davíð hefur verið mjög gagnrýnin á skipulagsmál í miðborg Reykjavíkur og skrifaði til að mynda ítarlega grein á vefsvæði sínu þar sem hann sagði þróunina í skipulagsmálum borgarinnar uggvænlega. „Líklega hefur gamli bærinn í Reykjavík ekki staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og nú frá því fyrir deiluna um Bernhöftstorfuna fyrir hátt í hálfri öld.“

Hann taldi að ef borgaryfirvöld vanræktu það hlutverk - að verðlauna ekki menn fyrir að ganga á umhverfisgæði nágrannans en refsa fyrir að leggja til umhverfisins - þurfi þar til gerð stofnun að grípa inn.