Sigmundur Davíð: Samhljómur með stefnu Íslands

04.02.2016 - 18:39
epa05049884 Iceland Prime Minister Sigmundur David Gunnlaugsson delivers a speech as he attends Heads of States' Statements ceremony of the COP21 World Climate Change Conference 2015 in Le Bourget, north of Paris, France, 30 November 2015. The 21st
 Mynd: EPA
Leiðtogar um það bil sjötíu ríkja, sem hittust í Lundúnum í dag til að ræða málefni Sýrlands, lofa að verja meira en tíu milljörðum dollara til hjálparstarfsins. Það er hærri upphæð en Sameinuðu þjóðirnar óskuðu eftir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sat leiðtogafundinn í dag. Að hans sögn var megináherslan lögð á að styðja hjálparstarfið í nágrannaríkjum Sýrlands, það er Jórdaníu, Líbanon, Tyrklandi og Egyptalandi.

„Auðvitað eru margir hérna áhyggjufullir yfir miklum straumi flóttamanna við hættulegar aðstæður til Evrópu,“ segir Sigmundur Davíð. „Flestir virðast vera sammála um að leiðin til að bregðast við því sé sú að bæta verulega í stuðning við löndin í grennd við Sýrland; bæði við hjálparstarf á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra stofnana. Síðan þarf að styðja þessi lönd líka, sem eru undir gríðarlega miklu álagi.“

Abdullah II Jórdaníukonungur lýsti því einmitt yfir í vikunni að Jórdanar væru að sligast undan kostnaði við að halda uppi á sjöunda hundrað þúsund flóttamönnum, sem flúið hafa til landsins. Hann sagðist verða að fá stuðning frá alþjóðasamfélaginu, ella yrði það að taka afleiðingunum.

Íslendingar ætla að verja tveimur milljörðum króna til hjálparstarfsins á þessu ári. Sigmundur Davíð ávarpaði ráðstefnuna í dag og gerði grein fyrir stefnu Íslands.

„Það má segja að það sé ágætis samhljómur með þeirri stefnu sem við og nokkur önnur Evrópulönd hafa talað fyrir; það er að geta tekið við fólki beint úr flóttamannabúðum, -  því fólki sem þarf raunverulega að flytja og getur ekki snúið heim, - en á sama tíma að styðja með verulegum fjárhæðum það hjálparstarf sem fer fram þarna í nærumhverfinu.“

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV