Sex mánaða fangelsi fyrir kókaínsmygl

15.02.2016 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Þýskur ríkisborgari var í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudag dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir tilraun til að smygla kókaíni til landsins. Maðurinn kom hingað til lands frá Berlín í byrjun desember.

Hann var dæmdur fyrir að smygla rúmlega 150 grömm af kókaíni falin í líkama sínum í fimmtán pakkningum. Í dóminum kemur fram að styrkleiki kókaínsins hafi að meðaltali verið 73 prósent og að fíkniefnið hafi verið ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til þess að maðurinn játaði skýlaust brot sitt og staðhæfingar hans að hann hefði ekki verið eigandi fíkniefnanna heldur tekið að sér að flytja þau hingað gegn þóknun. Einnig var lagt til grundvallar refsingu að honum hafði ekki verið gerð refsing áður, hvorki hér á landi né annars staðar.

Til frádráttar refsingu mannsins kemur gæsluvarðhald sem maðurinn hefur sætt frá 7. desember. Honum er auk fangelsisrefsingar gert að greiða allan sakarkostnað, rúma 1,7 milljónir króna. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV