Sérsveitarmenn með Glock 17 á 17. júní-hátíð

13.06.2017 - 16:06
Tveir til fjórir sérsveitarmenn verða með Glock 17 skammbyssur á hátíðarhöldum í tilefni af 17. júní í miðborg Reykjavíkur á laugardaginn. Ríkislögreglustjóri segir að ekki sé ástæða til að hækka viðbúnaðarstig, þótt embættið óttist að framin verði voðaverk hér á landi. Hann segir að til skoðunar sé að senda vopnaða sérsveitarmenn á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Hann vill ekki svara því, hvort fylgst sé með fólki hér á landi vegna tengsla við hryðjuverkahópa erlendis.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, sagði í hádegisfréttum, að ákveðið hafi verið að lögreglumenn beri sýnileg skotvopn við hátíðarhöld 17. júní, á laugardaginn og á öðrum fjöldasamkomum í sumar. Lögreglumenn báru slík vopn í Litahlaupinu á laugardag, sem hefur vakið þónokkra athygli.

Í spilaranum hér að ofan má sjá ítarlegt viðtal við Harald um málið.

„Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að við erum ekki að auka vopnaburð,“ segir Haraldur. „Það sem við erum að gera er að við erum að gera hina vopnuðu lögreglu í landinu, sérsveit ríkislögreglustjóra, sem dagsdaglega er undir vopnum, meira sýnilega á stórum samkomum. Samkomum þar sem tugir þúsunda koma saman á einhverri útihátíðinni.“

En hvers vegna er gripið til þess ráðs að auka sýnileikann?

„Það er sú þróun sem hefur átt sér stað í nágrannalöndunum. Nú síðast í London þar sem óðir menn gengu um og myrtu fólk á götum borgarinnar. Og það varð til þess að við þurftum að enduskoða okkar starfshætti í sérsveitinni og fórum þessa leið til að auka viðbragðið til þess að okkar viðbragð yrði skjótara en það var áður.“

Hefur þá farið fram nýtt áhættumat eftir árásirnar í London og Manchester?

„Já við fórum yfir stöðuna. Og okkur þótti ástandið orðið þannig að við gætum ekki látið nokkurn tíma líða þar til lögregla setur á sig vopn. Því hver sekúnda, hver mínúta, skiptir máli. Við sáum að breska lögreglan yfirbugaði þessa þrjá menn á átta mínútum. Sem er til eftirbreytni.“

Á hverju er svona áhættumat byggt? Hvernig fer það fram?

„Við fáum til dæmis upplýsingar erlendis frá, til dæmis. Okkar sérfræðingar hér leggjast yfir málið, sérsveitarmenn koma að málinu og svo kemur þetta mat lögreglunnar. Þörfin birtist í þessu mati. Stundum er það trúnaðarmál og stundum ekki. En þetta er sem sagt það vinnulag sem við höfum.“

Ekki meiriháttar ógn

Nú er verið að auka viðbúnað lögreglu, en hvers vegna hefur viðbúnaðarstig ekki verið hækkað?

„Viðbúnaðarstig er annað. Það þýðir að það er einhver meiriháttar ógn þegar í landinu eða von á meiriháttar ógn. Við erum ekki komin þangað núna.“

Er vitað um fólk hér á landi, sem hefur tengsl við hryðjuverkasamtök eða hugmyndir í þá veru?

„Við skulum segja að ég vilji ekki upplýsa um slíkt mál en það er full ástæða til þess að hafa varann á sér á hverjum tíma. Og við þurfum að átta okkur á því að þegar við erum hér með útihátíðir þar sem eru tugir þúsunda manna, jafnvel hundrað þúsund manns samankomin hér í miðborg Reykjavíkur, þá verður lögreglan að hafa ráðstafanir til að tryggja öryggi almennings og ég held að almenningur hljóti að hafa skilning á því þegar hann horfir til nágrannalandanna. Við munum öll hvernig þetta var í Noregi á sínum tíma í Úteyjarmálinu, þegar saklaus börn voru myrt þar, þar var viðbragðsgeta lögreglunnar ekki með þeim hætti sem hún þurfti. Og það kostaði mikla endurskoðun og uppstokkun á norsku lögreglunni, til dæmis. Og nú erum við komin með þetta til London.“ 

En er fylgst með einhverjum hér á landi, einhverjum sem hefur möguleg tengsl við hryðjuverkahópa?

„Ég get ekki sagt frá því opinberlega. En við gerum allt sem við getum til þess að tryggja öryggi borgaranna og almennings. Við verðum að átta okkur á því að þeir sem eru að fremja ódæðisverk eru að beina spjótum sínum að almenningi. Ekki hernaðarmannvirkjum eða yfirvöldum, heldur að saklausum borgurum sem eru bara í sínu daglega amstri eða á útihátíðum.“

Þannig að þið óttist raunverulega að svona nokkuð geti gerst hér á landi, og þess vegna er sýnileikinn aukinn með þessum hætti?

„Já við höfum áhyggjur af því. Þess vegna erum við að grípa inn í þetta með þessum hætti.“

Geta ekki hlaupið af vettvangi

Nú virðast einhverjir hreinlega óttast þennan aukna vopnaburð – hvað viltu segja við það fólk?

„Ég vil segja við það fólk að það þurfi ekki að óttast íslensku lögregluna. Hún er hluti af almenningi, hún vinnur með almenningi og er til þess að tryggja öryggi almennings. Þið þurfið ekki að óttast íslensku lögregluna.“

Þegar svona ákvörðun er tekin, er lagt mat á hvort aukinn sýnileiki vopna hjá lögreglu geti hreinlega ögrað ódæðismönnum, og mögulega orðið til þess að glæpamenn vopnavæðist frekar?

„Já það er alltaf undirliggjandi en okkar stefna hefur fyrst og fremst verið sú að hugsa um hag almennings og öryggi almennings. Við vitum það að sumir halda því fram að sýnilegur vopnaburður kalli á einhvers konar vopnuð viðbrögð af hálfu þeirra sem eru með þannig hugsanir. En við getum ekki farið eftir því á hverjum tíma.“

En lögðuð þið eitthvert mat á þann þátt?

„Eins og ég segi, þá er það alltaf undirliggjandi hugsun hjá okkur, hvað kosta ákveðnar ráðstafanir? Á hvers konar viðbrögð kalla ráðstafanir lögreglunnar? Þannig að það er alltaf metið að sjálfsögðu.“

Hver nákvæmlega er tilgangurinn með vopnaburði lögreglu? Er talið að vopnaburður gæti komið í veg fyrir voðaverk?

„Sérsveit ríkislögreglustjóra er vopnuð öllum stundum, allan sólarhringinn. Og vopnuðum útköllum sérsveita hefur fjölgað mikið á síðustu misserum. Til dæmis í maí voru 15 vopnuð útköll á 13 dögum. Og það eru útköll sem eru hin daglegu störf lögreglunnar hér á höfuðborgarsvæðinu, að mestu. Þar kemur sérsveitin inn, sem er vopnuð allan sólarhringinn. Og okkar mat var að til þess að tryggja skjótt viðbragð, ef á þyrfti að halda, þá væri heppilegast að lögreglumenn þyrftu ekki að hlaupa frá vettvangi, sækja síðan vopnin og koma síðan á vettvang til að verja borgarana með einhverjum hætti.“

Ákveðin leynd

Nýverið var sjálfsmorðssprengjuárás í Manchester, svo hafa ódæðismenn ekið bílum á fólk í London og Stokkhólmi, er talið að sýnilegur vopnaburður geti stöðvað hryðjuverk af þessu tagi?

„Lögreglumenn sem eru með vopn á sér geta brugðist strax við. Þeir þurfa ekki að hlaupa í vopnageymslu lögreglunnar eða í bíla lögreglunnar og ná þar í vopn. Og hver sekúnda og hver mínúta skiptir máli upp á að stöðva slíka einstaklinga.“

En þeir stöðva kannksi ekki sjálfsmorðssprengjuárás eða brjálaða menn á vörubílum?

„Nei við komum aldrei í veg fyrir hryðjuverk 100% en Bretar hafa haldið því fram, og engin ástæða til að efast um það, að þeir hafa komið í veg fyrir mörg hryðjuverk að undanförnu.“

Með sýnilegum vopnaburði?

„Þeir hafa ekki gefið upp með hvaða hætti þeir hafa komið í veg fyrir þessi hryðjuverk. Það er svona ákveðin leynd yfir því, og líka á hinum Norðurlöndunum. Það er ekki allt gefið upp um það hvernig lögreglan kemur í veg fyrir ýmsa svona mögulega viðburði.“

Nú var stórum vörubílum lagt fyrir götur á sjómannadaginn, hvers vegna var það gert?

„Það var fyrst og fremst gert til þess að koma í veg fyrir að það væri hægt að keyra inn í mannfjöldann.  Annað hvort viljandi eða óviljandi. Það hefur gerst líka að menn hafi óvart farið inn fyrir svona lokanir sem áður hafa verið. En þarna er verið að sperra betur af svæðið sem almenningur getur gengið frjáls um.“

Og það er þá fyrst og fremst í ljósi þessara atburða erlendis undanfarið?

„Já já. Það held ég að sé alveg ljóst.“

Er þessi viðbúnaður kominn til að vera eða er þetta tímabundið?

„Ég vona að þessi viðbúnaður þurfi ekki að vera hér um langan tíma. Eins og staðan er núna, eftir þessar árásir í London, þá ætlum við að hafa þetta á þessum stóru útihátíðum þar sem þúsundir eða tugþúsundir manna koma saman eitthvað fram eftir sumri. En við metum stöðuna og getum blásið þetta af hvenær sem við metum ástandið þannig.“

Tveir til fjórir vopnaðir lögreglumenn

Nú eru tvær stórar hátíðir um helgina, 17. júní á laugardaginn og Secret Solstice tónlistarhátíðin. Hvernig verður þessu háttað þar?

„Með þeim hætti sem verið hefur núna. Eins og í Color Run, þá verður þetta svipað.“

Þannig að til dæmis á 17. júní, þá getur fólk átt von á að sjá vopnaða lögreglumenn?

„Já. Við þurfum að átta okkur á því að sérsveitarmenn eru vopnaðir. Og þeir eru orðnir mjög sýnilegir í íslensku samfélagi. Þannig að almenningur er farinn að sjá vopnaða lögreglumenn mjög mikið hér á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að það er engin nýlunda, það er engin stefnubreyting hvað það varðar. En almenningur á von á að sjá vopnaða sérsveitarmenn á þessum stóru útihátíðum. En við erum til dæmis að velta fyrir okkur varðandi Vestmannaeyjar, lögreglustjórinn þar hefur ítrekað óskað eftir aðkomu sérsveitarinnar þar og við erum að meta það núna, hvort það sé þörf á vopnuðum sérsveitarmönnum um verslunarmannahelgina í Vestmannaeyjum.“

Hvernig vopn eru þetta sem lögreglumenn eru með sýnileg?

„Þetta eru skammbyssur sem menn eru með í belti á lærinu,“ segir Haraldur, en lögreglumennirnir verða með Glock 17 skammbyssur, með 9 mm hlaupavídd.

Hvað eru þetta margir vopnaðir menn á hverri hátíð, til dæmis á 17. júní á laugardaginn?

„Ætli þeir séu ekki tveir til fjórir. Ég reikna með því.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur gagnrýnt að almenningur hafi ekki verið upplýstur fyrir fram um að þetta stæði til. Hverju svarar þú því?

„Jú jú, ég skil vel þessa ábendingu frá henni. En þetta er alltaf matsatriði. Ef maður segir frá því að almenningur eigi von á því að sjá vopnaða sérsveitarmenn getur það valdið ótta og óöryggi og það getur valdið því að fólk fari ekki á staðinn og annað þvíumlíkt. En þetta er matsatriði og við mátum það svo að við ættum að fara þessa leið,“ segir Haraldur.