Sendi stúlku mynd af lim sínum á Snapchat

24.02.2016 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi á mánudag karlmann í 3 mánaða skilorðbundið fangelsi og til að greiða stúlku 250 þúsund krónur í miskabætur fyrir að hafa sent henni mynd af lim sínum á Snapchat og hvatt hana til að senda mynd af sér.

Stúlkan, sem var 15 ára þegar hún fékk myndirnar, rakti fyrir dómi hvernig samskipti hennar og mannsins hefðu byrjað.

Hún hefði sagt honum frá því að hún hefði fengið sér lokk í geirvörtuna - hann hefði beðið hana um að senda sér mynd af því og hún gert það. Maðurinn hefði sent henni til baka stutt myndskeið af typpinu sínu gegnum samskiptaforritið Snapchat.

Stúlkan sagði myndskeiðið hafa verið of stutt til að hún gæti tekið það upp. Hún hefði því beðið hann um lengra myndskeið. Stúlkan afritaði myndina og lokaði síðan á samskipti við manninn á Facebook.

Þegar stúlkan lagði fram kæru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fylgdi með myndband af samskiptum þeirra á Snapchat.

Maðurinn játaði að hafa sent myndirnar en neitaði því að hafa sent orðin „send þú“ eða hvatt hana til að senda sér kynferðislega mynd af sér. Hann hefði sent henni skilaboð um nóttina og beðið hana afsökunar enda gert sér grein fyrir því eftir á að það hefði verið rangt sem hann gerði.

Héraðsdómur segir að þótt engin gögn liggi fyrir um afleiðingar brotsins gagnvart stúlkunni breyti það því ekki að svona verknaður sé ávallt til þess fallin að hafa áhrif á andlega heilsu. Móðir stúlkunnar hafi auk þess sagt fyrir dómi að líðan dóttur hennar hafi verið ömurleg eftir atvikið en það hefðu orðið framfarir.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV