Semur ræðuna í flugvélinni til Hollywood

03.02.2016 - 10:59
Annie verðlaunin, virtustu verðlaunin í alþjóðlega teiknimyndageiranum, verða veitt við hátíðlega athöfn í Hollywood um næstu helgi. Tónlistarmaðurinn Einar Tönsberg er í hópi tilnefndra, en hann semur tónlist fyrir þættina Lundaklett.

Einar lærði upptökustjórn í London og í kjölfarið hefur hann samið popptónlist undir nafninu Eberg og með dúettenum Feldberg. Hann hefur líka samið tónlist fyrir fjölda kvikmynda og auglýsinga, þar á meðal tónlistina fyrir fyrstu iPhone-auglýsinguna.

Einar býr ásamt fjölskyldu sinni í Hvalfirðinum og reynir að vinna eins mikið og hann getur þaðan. „Þetta er svona allt annað tempó í sveitinni heldur en í borginni, miklu meiri ró yfir öllu og það eru engar freistingar, maður skreppur ekkert í bíó eða í heimsókn, gott ef maður þarf að einbeita sér.“

Einar segist hafa gaman af því að semja tónlist fyrir börn. „Ég held að ég hafi bara hitt á markhópinn minn. Ég var svo heppinn að vera með þriggja ára dóttur þegar ég byrjaði þetta, hún er mjög harður húsbóndi, einlæg og þegar hún er sátt þá er þetta allt á réttri leið.“ 

Nú þegar hafa verið gerðir 78 þættir af Lundakletti. Þættirnir hafa notið gríðarlegra vinsælda og eru sýndir um allan heim. Þriðja serían af Lundakletti er væntanleg í framleiðslu í haust og sér því ekki fyrir endann á þessu stóra verkefni hjá Einari.

Næst á dagskrá eru Annie verðlaunin, sem fara fram í Hollywood um næstu helgi þar sem Einar keppir við tónlist úr kunnuglegum teiknimyndum á borð við Mikka Mús. En er Einar búinn að ákveða hvað hann ætlar að segja ef hann skyldi vinna? „Nei, ég ætla að ákveða það í flugvélinni.“

 

Mynd með færslu
Kolbrún Vaka Helgadóttir
dagskrárgerðarmaður
Kastljós
Menningin