Segja vegið að flugöryggi

01.02.2016 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Flugrekstrarstjóri Norlandair og þjálfunarflugstjóri Mýflugs gagnrýna Isavia harðlega fyrir breytingar á flugumferðarþjónustu við Akureyrarflugvöll. Þeir segja breytingarnar verða til að skerða öryggi á flugvellinum. Þeir segja að með því að færa Akureyrarflugvöll úr ATC flokki í AFIS flokk dragi úr öryggi. Fyrrnefndi flokkurinn feli í sér að flugumferðarstjórar manna radarþjónustu en það eigi ekki við í síðarnefnda flokknum. Þar séu minna menntaðir starfsmenn á vakt.

Þetta segja þeir Steindór Kristinn Jónsson, flugrekstrarstjóri og flugstjóri hjá Norlandair, og Þorkell Ásgeir Jóhannsson, þjálfunarflugstjóri hjá Mýflugi, í bréfi sem þeir hafa ritað Isavia, fulltrúum bæjar- og sveitarstjórna við Eyjafjörð, þingmönnum norðausturkjördæmis og samgöngunefnd Alþingis.

Steindór og Þorkell segja lykilatriðið í breytingunum hjá Isavia vera það að AFIS-starfsmenn hafi ekki starfsþjálfun og réttindi til að veita radarþjónustu. Það telja þeir ófullnægjandi og draga úr öryggi í flugi um Akureyrarflugvöll. Þeir segja að þrír af sex flugumferðarstjórum séu ýmist hættir eða að hætta og að ekki hafi verið brugðist við því tímanlega með ráðningu eða þjálfun annarra í þeirra stað.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV