Segja lokun verksmiðju skapa óvissu

18.08.2017 - 07:31
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage  -  RÚV
Stjórn United Silicons segir að stöðvun verksmiðjunnar myndi ekki skila neinum árangri í þeirri vinnu sem er hafin við að greina hvaða efni í útblæstri frá verksmiðjunni valda óþægindum og lykt. Bæjarráð Reykjanesbæjar bókaði á fundi sínum í gær að það vildi láta loka verksmiðjunni meðan unnið væri að nauðsynlegum úrbótum til að koma í veg fyrir mengun frá henni.

Í yfirlýsingu frá stjórn United Silicons segir að fyrstu niðurstöður úr rannsóknum á útblæstri frá verksmiðjunni gefi til kynna að hann sé ekki skaðlegur heilsu manna. Stjórn United Silicon segir að ef unnið verði áfram að greiningu á útblæstrinum takist vonandi að greina betur á næstu vikum hvaða efni valdi óþægindum og ólykt og þróa leiðir til að eyða þeim eða koma í veg fyrir að þau myndist. Stjórnin segir að stöðvun verksmiðjunnar nú myndi skapa fullkomna óvissu um áframhald rannsókna, framtíðarrekstur, störf starfsmanna og hagsmuni kröfuhafa.