Segja frá nauðgun og átta ára sáttaferli

07.02.2017 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: TED
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger lýsa því á hispurslausan hátt, í fyrirlesti sem birtur var á vefsíðunni TED í dag, hvernig Tom nauðgaði Þórdísi, áhrifum þess á líðan þeirra beggja og hvernig þau náðu sáttum. Níu árum eftir nauðgunina skrifaði Þórdís Tom, sem býr í Ástralíu, bréf og hann svaraði og gekkst við því að hafa beitt hana kynferðisofbeldi. Átta ár af bréfaskiptum fylgdu í kjölfarið og síðan hittust þau á vikulöngum sáttafundi í Suður-Afríku.

Tom var skiptinemi á Íslandi á unglingsárunum og þau Þórdís voru kærustupar. Kvöld eitt eftir að þau höfðu verið á skólaskemmtun, fylgdi Tom Þórdísi heim. Hún var mjög drukkin og hann hjálpaði henni í rúmið, þar sem hann nauðgaði henni. 

Þórdís segir frá því í TED-fyrirlestrinum að hún hafi fyllst skömm. Henni hafi liðið illa í níu ár og á endanum ákveðið að senda Tom bréf. Það hafi komið henni á óvart að Tom skyldi svara og gangast við því að hafa nauðgað henni. 

Tom segist allan tímann hafa vitað að hann hafi breytt rangt. Hann hafi verið á flótta frá sjálfum sér og í afneitun. 

Eftir að Þórdís sendi bréfið voru þau Tom í bréfaskiptum í átta ár. Þórdís segir í fyrirlestrinum, að þetta hafi ekki verið orðið til þess að hún næði að fullu sátt við fortíðina. Hún hafi því óskað að þau hittust í eigin persónu. 

Hittust á vikulöngum fundið í S-Afríku
Tom segir að Suður-Afríka hafi orðið fyrir valinu þar sem landið sé miðja vegu milli Íslands og Ástralíu. Þau hafi dvalist þar í viku. Þau hafi gert með sér samkomulag um að segja heiðarlega frá og það hafi falið í sér að þau urðu berskjölduð. Þau hafi hlýtt á reynslu hvors annars. Þau gríðarmiklu áhrif kynferðisofbeldis, hafi verið færð í orð, sögð upphátt og upplifuð. „Við gerðum okkar besta til að hlusta á hvort annað,“ segir Tom. 

Þórdís viðurkennir að hana hafi langað til þess að hefna sín á Tom. „Árum saman langaði mig bara til að meiða Tom jafn mikið og hann hafði sært mig. Ef ég hefði ekki fundið aðferð til þess að losna við hatrið og reiðina, er ég ekki viss um að ég stæði hér í dag,“ segir Þórdís. „Ég hafði mínar efasemdir. Þegar vélin var að lenda á flugvellinum í Höfðaborg hugsaði ég, af hverju fór ég ekki til sálfræðins og slokaði í mig vodka-flösku, eins og eðlileg manneskja hefði gert,“ segir Þórdís. 

Ljósið sigraði myrkrið
Hún segist stundum hafa verið við það að gefast upp á fundi hennar og Toms í Höfðaborg. „En þrátt fyrir erfiðleikana þá varð niðurstaðan af fundinum sú að ég upplifði sigurtilfinningu, að ljósið hefði sigrað myrkrið. Að hægt væri að byggja upp á nýtt úr rústunum. Ég las einhvers staðar að maður ætti að leitast við að vera sú manneskja sem maður hefði þurft á að halda þegar maður var yngri. Þegar ég var unglingur hefði ég þurft að fá að vita að skömmin var ekki mín og það er von eftir nauðgun og það er jafnvel hægt að finna hamingju eins og ég geri með eiginmanni mínum í dag. Þess vegna fór ég að skrifa af miklum krafti þegar ég kom heim frá Höfðaborg. Niðurstaðan varð bók sem Tom er meðhöfundur að. Við vonum að hún nýtist bæði þolendum og gerendum,“ segir Þórdís. 

Bókin heitir Handan fyrirgefningar og er væntanleg 16. mars, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Forlaginu. Þar kemur jafnframt fram að hvorki Þórdís né Tom ætli að veita fjölmiðlum viðtöl að svo stöddu.

Þórdís segist í fyrirlestrinum gera sér grein fyrir því að þegar fólk fjalli um reynslu hennar og Toms muni orð eins og fórnarlamb og nauðgari heyrast. Slíkar merkingar séu leið til að flokka hugmyndir en þannig merkingar geti á vissan hátt gert fólk ómennskt. „Þá er miklu auðveldara að afgreiða einstaklinginn sem einhvers sem er skemmdur, einhvern sem skömm hvílir á, minnimáttar. Og þegar einhver hefur verið flokkaður sem nauðgari, þá er miklu auðveldara að kalla hann skrímsli eða ómennskan. En hvernig eigum við að öðlast skilning á því hvað það er í samfélagi manna sem geldur af sér ofbeldi, ef við neitum að viðurkenna að þeir sem fremja ofbeldi eru manneskjur,“ spyr Þórdís. „Og hvernig getum við hjálpað þeim sem hafa þolað ofbeldi til valdeflingar, ef við látum þeim finnast þeir vera minnimáttar?,“ spyr Þórdís og segir að slík orðanotkun geti verið hluti þess vanda sem reynt sé að uppræta í baráttunni gegn kynferðisofbeldi.

„Skipti mestu að ábyrgðin á ofbeldi fór af Þórdísi á mig“
Tom segist nú hafa áttað sig á því að gjörðir hans kvöldið örlagaríka hafi verið stjórnast af eigingirni. „Mér fannst ég hafa rétt á líkama Þórdísar,“ segir Tom. „Mér fannst konur minna virði en karlar og að karlar ættu rétt á að nýta sér líkama þeirra,“ segir Tom. „Þetta voru mínar hugmydir og ég var einn um ákvörðunina þetta kvöld,“ segir Tom. Það geta afar merkilegir hlutir gerst þegar maður axlar ábyrgð á gjörðum sínum. Ég hélt að það myndi reynast mér um megn, að ég yrði ekki lengur álitin hluti af samfélagi manna. Í stað þess stóð mér til boða að gangast við gjörðum mínum og komst að því að þetta er ekki heildarmyndin af mér. Einfaldlega sagt, eitthvað sem þú hefur gert, þarf ekki að vera summa þess sem þú ert. Hávaðinn í höfði mér hljóðnaði og sjálfsvorkunnin var svelt af súrefni og í stað kom tært andrúmsloft sem fólst í því að gekkst við því að hafa sært þessa yndislegu manneskju sem stendur nú við hlið mér,“ segir Tom í fyrirlestrinum og horfir á Þórdísi. „Ég sætti mig við það að ég er hluti af stórum hópi manna sem hafa beitt aðra kynferðisofbeldi. Ekki gera lítið úr mátti orða. Það að viðurkenna fyrir Þórdísi að ég hafi nauðgað henni breytti mér. Og það sem mestu máli skiptir, það færði ábyrgðina á ofbeldinu frá henni og yfir til mín,“ segir Tom.

Þórdís segir að með þessu séu hún og Tom ekki að gefa út einhverja uppskrift að því hvernig aðrir eigi að taka á kynferðisofbeldi. Enginn hafi rétt á því að segja öðrum hvernig þeir eigi að fara með sinn dýpsta sársauka eða mestu mistök. „Ég get sagt frá reynslu minni án þess að eiga á hættu að verða hafnað af samfélaginu eða jafnvel drepin. En með þeim forréttindum að hafa rödd fylgir sú ábyrgð að láta hana heyrast. Það er það minnsta sem ég get gert fyrir þá sem hafa þjáðst eins og ég en geta ekki hafið upp raust sína,“ segir Þórdís. Hún bendir á að þar sem hún hafi komið og greint opinberlega frá reynslu sinni, séu langflestir í hópi áheyrenda konur. „Það er kominn tími til að við hættum að líta á þetta sem kvennavandamál,“ segir Þórdís í lok fyrirlestursins, sem lauk með standandi lófataki. 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV