Segir vinnufæra einstaklinga afskrifaða

28.08.2016 - 19:41
Öryrkjum kemur til með að fækka hér á landi á næstu árum verði breytingar á lögum um almannatryggingar að veruleika. Þetta segir Hannes Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins. Núverandi kerfi afskrifi vinnufært fólk af vinnumarkaði vegna örorku.

Fréttastofa greindi frá því í gær að tæplega þúsund manns hafa verið metnir með 75% örorku hér á landi það sem af er ári. Það er fimmtíu prósenta aukning miðað við meðaltal síðustu fimm ára og stefnir í metfjölgun í hópi öryrkja á þessu ári. Forystumenn á vinnumarkaði hafa undanfarin ár kallað eftir breytingum á endurhæfingarkerfinu.

„Ef við setjum þessar tölur í samhengi við nýliðun á vinnumarkaði þá er þetta meiri fjöldi heldur en þeir nýju einstaklingar sem koma inn vegna náttúrulegrar fjölgunnar. Þetta eru ískyggilegar tölur og mikið vinnumarkaðsvandamál í raun og veru. Þetta segir okkur það að við verðum að leggja enn meiri áherslu á starfsenduræfingu en hingað til hefur verið gert,“ segir Hannes.

Í drögum velferðarráðherra að breytingum á lögum um almannatryggingar er gert ráð fyrir að frá og með 1. janúar á næsta ári hefjist samstarfsverkefni stjórnvalda, vinnumarkaðarins og samtaka örorkulífeyrisþega sem felur í sér þær breytingar að allir umsækjendur um örorku- og endurhæfingarlífeyri fari í gegnum svokallað starfsgetumat, þar sem starfsgeta öryrkja er metin og ótekjutengdar hlutabætur gagnvart atvinnutekjum teknar upp. Hið nýja fyrirkomulagi taki svo gildi að fullu árið 2020. 

Samtök atvinnulífsins hefðu viljað að starfsgetumatið tæki gildi strax á næsta ári, líkt og nefnd um endurskoðun á almannatryggingum lagði til í upphafi, í stað þriggja ára aðlögunarferlis. Hannes segir þó að ljóst að öryrkjum myndi fækka með nýju fyrirkomulagi.

„Jú ég hef trú á því að það geti lækkað mjög mikið. Í þeirri stöðu sem það er uppi þá tel ég mikilvægt að það sé tekið þetta skref, frekar en að þetta frestist enn frekar,“ segir Hannes og bætir því við að núverandi örorkumat afskrifi vinnufæra einstaklinga af vinnumarkaði.