Segir samþykkt Öryggisráðsins skýr skilaboð

02.03.2016 - 17:31
epa05177053 US President Barack Obama delivers remarks on his plan to close the detention facility for enemy combatants at Guantanamo Bay from the Roosevelt Room of the White House in Washington, DC, USA, 23 February 2016. The broad plan includes
Barack Obama Bandaríkjaforseti.  Mynd: EPA  -  EPA
Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnaði síðdegis ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem fyrr í dag samþykkti einróma hertar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreumönnum vegna nýlegra kjarnorku- og flugskeytatilrauna þeirra. Obama sagði samþykkt ráðsins fela í sér skýr skilaboð frá alþjóðasamfélaginu til stjórnvalda í Pjongjang.

Það voru Bandaríkjamenn sem lögðu fram tillöguna í öryggisráðinu vegna kjarnorkutilraunar Norður-Kóreumanna 6. janúar og eldflaugarskots þeirra 7. febrúar. Kínverjar sem gjarnan hafa varið stjórnvöld í Pjongjang lögðu blessun sína yfir ályktunartillögu Bandaríkjamanna, sem meðal annars felur í sér að allur varningur, sem fluttur er til og frá Norður-Kóreu, verður rannsakaður í þaula.

Þá er fleiri einstaklingum og fyrirtækjum í Norður-Kóreu bætt á lista yfir þá sem sæta refsiaðgerðum á borð við ferðabann og eignafrystingu. Einnig verður bann við sölu á vopnum til Norður-Kóreu hert og nær einnig til smávopna. Auk þess er kveðið á um að vísað verði úr landi norðurkóreskum diplómötum sem gerist sekir um ólöglegt athæfi.

Obama Bandaríkjaforseti sagði í yfirlýsingu eftir atkvæðagreiðsluna í Öryggisráðinu að alþjóðasamfélagið hefði talað einum rómi og sent stjórnvöldum í Pjongjang einföld en skýr skilaboð. Þau yrðu að leggja kjarnorku- og flugskeytaáætlanir sínar á hilluna og velja betri leið í þágu almennings í Norður-Kóreu.