Segir ótímabært að lýsa yfir andstöðu

19.04.2017 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður fjárlaganefndar Alþingis segir of snemmt fyrir þingmenn að segja hvort þeir styðji fjármálaáætlun eða ekki, vegna hækkunar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu, þingið eigi eftir að ræða breytingar á henni. Sjálfur vill hann endurskoða ýmis atriði.

 

Samkvæmt fjármáláætlun til ársins 2022 er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði í almennu þrepi, það er að segja efra þrepi og að breytingin taki gildi um mitt næsta ár. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst efasemdum og hreinlega andstöðu við þessar breytingar.

Haraldur Benediktsson formaður fjárlaganefndar segir að tillagan um fjármálaáætlun sé nú komin fram og verði tekin til skoðunar og bendir hann á að í fjármálaætlun séu líka mótvægisaðgerðir fyrir ferðaþjónustuna. Meðal þess sem ræða þurfi er gildistaka breytinganna og eins hvort að fara eigi í meiri kerfisbreytingar og fleira.

„Það getur líka verið kostur að taka meiri og stærri endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu í heild sinni, mögulega stefna hraðar að einu þrepi með undanþágu fyrir mat, svo ég nefni einhverjar hugmyndir.“

Haraldur minnir á að í fjármálaáætlun sé einnig gert ráð fyrir því hvernig tekjum af fyrirhuguðum breytingum verði varið og þá þurfi að ákveða hvar eigi að skera niður á móti. Sjálfur myndi hann vilja sjá, í tengslum við aukna gjaldtöku af ferðaþjónustunni, að farið yrði í stórsókn í samgöngumálum, fátt kæmi greininni og landsbyggðinni betur. Samkvæmt fjármálaætlun á að lækka almenna virðisaukaskattsþrepið úr 24% í 22,5% og mögulega síðar í 22%.

„Þetta er nákvæmlega sá punktur sem ég hef ásamt fleirum bent á. Hvers vegna erum við fyrst að hækka til þess að lækka svo aftur, það tengist þessari umræðu um gildistíma sem hefur verið nefndur svo. Mér finnst þetta kannski eitt af því sem má endurskoða.“  

Flokkssystkin Haraldar, þau Valgerður Gunnarsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson hafa sagt að þau greiði ekki atkvæði með fjármálaáætlun óbreyttri, það er með hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna. Ríkisstjórnin er með eins manns meirihluta á þingi, en Haraldur óttast ekki að áætlunin fari ekki í gegn.

„Nei. Það er algjörlega ótímabært að ræða þetta með þessum hætti. Núna er þingið með málið og þingið hlýtur að ræða breytingar á þessu eins og öðrum þáttum fjármálaáætlunar. Síðan verður að koma í ljós hvaða breytingar verða gerðar, um hvað næst samastaða, þá er tímabært fyrir fólk að segja hvort það ætli að greiða þessu atkvæði sitt eða ekki. Við erum bara ekkert komin þangað ennþá,“ segir Haraldur Benediktsson formaður fjárlaganefndar Alþingis.