Segir neyðarlög nauðsynleg

22.01.2016 - 07:02
epa05098757 French Prime Minister Manuel Valls listens to the speeches during the weekly session of question to Government at the French National Assembly in Paris, France, 12 January 2016.  EPA/YOAN VALAT
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands.  Mynd: EPA
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, mælir með að neyðarlög verði í gildi í landinu þangað til baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu sé lokið.

Valls sagði í viðtali við breska útvarpið BBC að Frakkland væri í stríði og það þýddi að stjórnvöld yrðu að leita allra þeirra leiða sem lýðræðið heimilaði til að vernda landsmenn. 

Neyðarlög voru sett á í Frakklandi eftir árásirnar í París í nóvember og voru síðan framlengd í þrjá mánuði. Þau veita yfirvöldum auknar heimildir, meðal annars til handtöku og húsleitar. 

Valls sagði að Frakkar gætu ekki alltaf búið við neyðarlög, en þau þyrftu að vera þangað til búið væri að eyða þeirri ógn sem stafaði af Íslamska ríkinu. Uppræta yrði samtökin hvar sem væri, í Afríku, Asíu og Austurlöndum nær. Þetta væri alþjóðlegt stríð gegn hryðjuverkum.

Í viðtalinu fjallaði Valls einnig um flóttamannavandann í Evrópu og sagði að ríki álfunnar gætu ekki tekið við öllum þeim sem væru að flýja stríðið Írak og Sýrlandi. Evrópusambandið yrði að grípa til aðgerða til að verja ytri landamæri sín. Tækist það ekki yrði tilvist þess ógnað. Brýnt væri að finna viðunandi lausn á þessum vanda.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV